139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

norðurskautsmál 2010.

576. mál
[14:16]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get tekið undir með hv. þingmanni að það væri vel við hæfi að slík skrifstofa yrði sett upp hér á landi. Ég er á því að við eigum að leggja okkur fram við að ná henni hingað, ef þannig orðalag er notað, og festa þá ekki þá skrifstofu sem Norðmenn hafa tekið forustu um að setja á laggirnar tímabundið í sessi þar nema ákvörðun verði tekin um það að við sækjumst ekki eftir því.

Að þessu þarf að vinna, þetta er starfsemi sem á vel heima hér. Þetta er alþjóðastarf þar sem við eigum að sýna forustu. Menn geta deilt um hvort öryggisráðsbröltið okkar, ef ég nota það orð, á sínum tíma hafi verið eitthvað sem við áttum að verja tíma og fjármunum í, við getum deilt um önnur alþjóðasamtök sem og sambönd sem við erum að sækja um aðild að en um þetta held ég að við getum náð sátt í öllum flokkum og meðal þjóðarinnar að þarna eigum við að sinna okkar heimahögum. Ég vil því hvetja hv. þingmann til að berjast fyrir því innan sinna raða að við stefnum að því að fá þessa skrifstofu hingað, alla vega að byrja á því að láta athuga um hvaða kostnað við værum að tala. Þegar um er að ræða slíka starfsemi leggja öll löndin eitthvað til og ávinningurinn af þessu yrði mikill, bæði í þekkingunni sem yrði til hér og líka varðandi þau aukaáhrif sem þarna gæti verið um að ræða. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort einhver slík vinna sé hafin, hvort þetta hafi verið lagt til (Forseti hringir.) einhvers staðar á vettvangi þessara samtaka og Ísland boðið fram sem staðsetning fyrir skrifstofuna.