139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það hefur á köflum verið dálítið sérkennilegt að hlýða á umræðu um þetta mál frá þeim sem standa að þessari tillögu um að skipa 25 manna stjórnlagaráð. Síðast í máli hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar var því mjög haldið á lofti að það hefði verið svo óljóst hvernig bregðast ætti við niðurstöðu Hæstaréttar að hann hefði fyrir sitt leyti komist að þeirri niðurstöðu að ekkert annað hefði verið hægt en að endurtaka leikinn. Þetta hljómar í mínum eyrum eins og að sú hugsun ráði för að viðkomandi aðilar, sem standa að þessari tillögu, hafi verið búnir að gera það upp við sig að endurskoðun stjórnarskrárinnar yrði að fara fram á grundvelli þeirrar kosninganiðurstöðu sem fékkst og nú hefur verið ógilt, og þess vegna hafi þeir einungis staðið frammi fyrir þeirri spurningu hvernig þeir gætu, þrátt fyrir niðurstöðu Hæstaréttar, látið endurskoðun stjórnarskrárinnar fara fram með þeim einstaklingum sem flest atkvæði fengu eftir talningu.

En það er ekki spurningin sem við stöndum frammi fyrir hér eftir niðurstöðu Hæstaréttar. Það er allt önnur og miklu stærri spurning sem við stöndum frammi fyrir. Spurningarnar sem við höfum hér til að leysa úr eru: Er þörf á endurskoðun stjórnarskrárinnar? Hvað er það í stjórnarskránni sem þarfnast endurskoðunar við? Hvernig ætlum við síðan að standa að þeirri endurskoðun?

Nú er það svo að stjórnarskráin sjálf geymir reglur um það hvernig standa á að breytingum á stjórnarskránni og það er einungis hér á þinginu sem hægt er með lögmætum hætti að leggja fram tillögur til breytinga á stjórnarskránni og taka þær til afgreiðslu. Við þekkjum það ferli sem þá tekur við, þá verður boðað til kosninga o.s.frv., og nýtt Alþingi tekur málið jafnframt til umfjöllunar. Við þurfum í sjálfu sér ekki að velta því mikið lengur fyrir okkur hvernig endurskoða eigi stjórnarskrána. Það liggur alveg fyrir, það eru til um það lög, það eru stjórnarskipunarlögin sjálf sem geyma reglur um það. Við ræddum það reyndar fyrir síðustu kosningar hvort við vildum breyta þeirri reglu og hana er að finna í 79. gr. stjórnarskrárinnar. Það var hugmynd okkar í Sjálfstæðisflokknum í aðdraganda síðustu kosninga að við breyttum einungis 79. gr., um það hvernig við stæðum að breytingum á stjórnarskránni. Það hefði þá rutt úr vegi þeirri meintu hindrun sem kosningarnar eru samkvæmt núgildandi reglum. En það tókst engin sátt um það, meðal annars vegna þess sem komið hefur fram í umræðunni að þeir sem stóðu að ríkisstjórninni sem tók við í febrúar 2009 höfðu sínar eigin hugmyndir um hverju ætti að breyta.

Framsóknarflokkurinn vildi að komið yrði á fót stjórnlagaþingi og að Alþingi mundi vísa verkefninu alfarið þangað. Samkvæmt þeirri hugmynd átti stjórnlagaþingið að verða stjórnarskrárgjafi. Þetta gátu samfylkingarmenn sætt sig við að því tilskildu að þeir fengju eina breytingu á stjórnarskránni fyrst. Það sama gilti líka um Vinstri græna. Þetta voru þeir þrír aðilar sem stóðu að því ríkisstjórnarsamstarfi. Vinstri grænir fengu eina breytingu á stjórnarskránni eða svo, Samfylkingin fékk líka eitthvað og með stuðningi Framsóknarflokksins mátti breyta stjórnarskránni. Svo koma menn upp í þessari umræðu og segja að það hafi verið einhvers konar skandall að Sjálfstæðisflokkurinn hafi stöðvað þetta glórulausa ferli sem hófst nokkrum vikum fyrir þingkosningar í landinu. Það átti að þrýsta í gegn án alls samráðs á Alþingi breytingum á grundvallarlögunum. Menn skammast sín ekki einu sinni fyrir það heldur reyna að koma óorði á Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa staðið gegn þessu. Við erum reyndar stolt af því, ekki síst nú þegar maður sér hvernig þeir sem ráða för á þinginu umgangast stjórnarskrána og það mikilvæga verkefni sem við þurfum að leysa.

Það hefur komið fram nefndarálit frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, sem sagt frá 1. minni hluta allsherjarnefndar, og mælt hefur verið fyrir því. Eins og þar kemur fram hefur Sjálfstæðisflokkurinn ávallt lýst sig reiðubúinn til að vinna í samstarfi við aðra flokka að endurskoðun á stjórnarskránni. Það gerðum við allt frá því fyrir síðustu kosningar, tókum virkan þátt í nefndarstarfinu sem komið var á fót árið 2005 og menn segja núna: Í ljósi þess að sú nefnd komst ekki að neinni niðurstöðu þá verður þingið að vísa verkefninu frá sér. Því er ég algerlega ósammála. Ég tel þvert á móti að þar höfum við fengið ágætisefnivið í að vinna verkið áfram. Á sínum tíma kom út áfangaskýrsla frá stjórnarskrárnefndinni sem þá hafði starfað og það sem bæst hefur við í millitíðinni eru niðurstöðurnar af þjóðfundinum sem haldinn var síðasta haust þar sem eitt þúsund manns hvaðanæva af landinu mættu og lýstu viðhorfum sínum til breytinga á stjórnarskránni, fólk á öllum aldri. Með það veganesti hóf stjórnlagaþingsnefndin störf undir forustu Guðrúnar Pétursdóttur. Þar hafa setið lögfræðingar ásamt með öðru góðu fólki. Sá hópur hefur starfað í nokkra mánuði og er tilbúinn með þau gögn sem átti að leggja fyrir stjórnlagaþingið. Nú stöndum við sem sagt í þeim sporum að Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að stjórnlagaþingskosningin sé ógild — bara til að árétta það þá segir í ályktunarorðum Hæstaréttar: „Kosning til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 er ógild.“

Í mínum huga þýðir það einfaldlega að menn eru reknir aftur á byrjunarreit. Það er það sem þeir sem standa að þessari þingsályktunartillögu, um skipun stjórnlagaráðs, virðast ekki skilja eða túlka að minnsta kosti með einhverjum öðrum hætti vegna þess að þingsályktunartillagan gengur í öllum atriðum, eins og fram kemur í áliti 1. minni hluta, út á það að láta sem Hæstiréttur hefði komist að einhverri annarri niðurstöðu.

Það má segja að þetta hafi svo sem komið ágætlega fram áður, t.d. í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar, en þessu er einfaldlega best lýst með því að hefði Hæstiréttur komist að þveröfugri niðurstöðu, að kosningin væri gild, þá væri nær algerlega sama ferlið að fara að taka við. (Gripið fram í: Það væri löngu hafið.) — Það væri löngu hafið, er kallað fram í, það hefði hafist fyrir einhverjum vikum, já. En það gerðist sem sagt ekki en þessi samanburður leiðir til þeirrar einföldu og mjög skýru niðurstöðu að það sem er verið að reyna að gera er að sveigja fram hjá niðurstöðu Hæstaréttar, það er ekki hægt að komast að neinni annarri niðurstöðu. Menn hafa komið upp í umræðunni og sagt að það hafi verið nauðsynlegt vegna þess að ekkert annað hafi verið í boði, það hafi ekki verið hægt að gera neitt annað.

Ég hef aðeins komið inn á fyrsta valkostinn sem er augljóslega sá, og það er sá valkostur sem við höfum ávallt lagt áherslu á, að við förum eftir stjórnarskránni við endurskoðun stjórnarskrárinnar og tökum málið upp á þinginu og hefjumst handa við að vinna verkið. Því miður hafa farið rétt um það bil tvö ár í þessa vitleysu um formið, tvö ár hafa farið til spillis í þessu verkefni sem ríkisstjórnin leggur svona mikla áherslu á og Framsóknarflokkurinn hefur líka lagt áherslu á að þetta verk þyrfti að hefjast. Nú hafa sem sagt tvö ár farið í vaskinn. Þetta er fyrsti valkosturinn.

Annar valkosturinn hefði verið sá, fyrir þá sem vilja fara þessa leið, að byrja upp á nýtt. Hefði maður átt að vera hlutlaus ráðgjafi fyrir þetta fólk þá hefði ég helst stungið upp á því að byrjað hefði verið upp á nýtt og þá hefði ég líka reynt að draga einhvern lærdóm af því sem mistókst í fyrri kosningu, t.d. eins og það atriði að frambjóðendur voru rúmlega 500. Það er afar óheppilegt, ekki síst þegar um er að ræða persónukjör. Augljóslega hefði þurft að setja mun hærri þröskulda fyrir því að geta gefið kost á sér. Það hefði verið hægt að gera t.d. með því að gera áskilnað um mun fleiri meðmælendur. Persónukjörið sem slíkt finnst mér að hafi ekki skilað ásættanlegri niðurstöðu. Það birtist í ýmsu, t.d. í þeim mikla halla sem er á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis eftir að talið hafði verið upp úr kjörkössunum. Svo má auðvitað nefna þá tilraun sem þarna var verið að gera með talningu atkvæða, þessi kjörseðill og rafræna talningin, allt gaf þetta fólki tilefni til að hugsa málið algerlega upp á nýtt.

Mér finnst það líka vera nokkuð áberandi að jafnvel þó að fram hafi farið kosning síðasta haust, og frambjóðendur hafi haft tækifæri til að kynna sig og sín sjónarmið, ákveðinn fjárhagslegur rammi settur til þess, þá finnst mér mjög óljóst við hverju var að búast af þessu stjórnlagaþingi hefði það tekið til starfa. Það voru engar skýrar línur um það hvaða sjónarmið urðu ofan á í kosningunni sem slíkri. Við sáum að þekktari nöfn komust frekar inn á þingið en hvaða sjónarmið var tekist á um í þeim kosningum sem fóru fram? Hvaða andstæðu sjónarmið mættust í kosningabaráttunni og hver vann þessa kosningu þá í þeim skilningi? Og hver tapaði? (Gripið fram í.) Já, þeir sem vildu virða stjórnarskrána, það voru þeir sem helst unnu en nú er einmitt verið að fara á svig við hana. Mér finnst það nú vera dálítið til að hugsa um að fram fari almennar kosningar í landinu og einhver niðurstaða komi úr þeim og það sé svo fullkomlega óljóst fyrir fólki sem tók þátt í kosningunum, og fyrir þeim sem yfir höfuð eru að reyna að túlka niðurstöðuna, hver niðurstaðan hafi eiginlega orðið. Um hvað var kosið? Hvaða sjónarmið varð ofan á og hvaða sjónarmið tapaði? Mér fannst það vera afar óskýrt. Auðvitað var kosningaþátttakan, ég man ekki hvort ég var búinn að nefna það, til vitnis um takmarkaðan áhuga.

Ég hef sem sagt rakið nokkrar ástæður þess að það sem hefði legið beinast við fyrir þá sem vildu endurtaka þennan leik var að byrja alveg frá grunni, því mæli ég með, ég mæli með því að þingið taki málið á dagskrá. En fyrir þá sem vildu halda stjórnlagaþing hefði það legið beinast við að búa til ný lög. Ég hef tekið eftir því að formaður hv. þingmanns sem síðast talaði er t.d. á þessari skoðun hafi ég skilið hann rétt. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur talað fyrir því að menn tækju sér góðan tíma og lærðu af mistökunum og gerðu þetta bara alveg upp á nýtt.

Þá er kostnaðurinn nefndur til sögunnar og ég get tekið undir það. Ég skil að menn sjái ofsjónum yfir þeim mikla kostnaði en það er einmitt eitt af því sem við töluðum um strax í upphafi, það er dálítið seint fyrir þá sem lögðu af stað í þennan leiðangur að tala núna um hinn mikla kostnað. Það var meðal sjónarmiða okkar áður en lögin um stjórnlagaþingið voru sett, þá bentum við á að ef menn ætluðu að fara í þennan leiðangur mundi það kosta mjög mikið.

Það er spurt: Hvers vegna ekki uppkosning? Svarið við því hefur kannski þegar komið fram í mínu máli, að þá væru menn að endurtaka kosninguna á þessum sama gallaða grundvelli og eins ljóst að frambjóðendur væru þá rúmlega 300 eða 400 — kannski hefðu 500 manns aftur gefið kost á sér, ég veit það ekki — og ég held að við hefðum ekki fengið betri niðurstöðu. Ég held reyndar að þá hefði stefnt í enn minni kosningaþátttöku en í fyrra skiptið og þetta hefði þá orðið enn vandræðalegra en það er orðið í dag (Gripið fram í: Sammála.) Og þá er eins og menn komist að þeirri niðurstöðu, hver fyrir sitt leyti, að þá standi bara eftir einn valkostur sem sé sá að þrátt fyrir niðurstöðu Hæstaréttar verði að byggja á niðurstöðu hinnar ógildu kosningar og raða inn í nýtt ráð eftir þeirri röð sem talningin eftir stjórnlagaþingskosninguna segir til um. Þar byrjar málið aldeilis að flækjast vegna þess að ef einhver hefði helst úr lestinni af þeim 25 sem kosnir voru til stjórnlagaþingsins hefði þurft að endurtelja atkvæðin vegna þess að það hefði getað haft mjög mikil áhrif á það hverjir hefðu komið næstir. En það stendur samt ekkert í mönnum að halda áfram niður eftir listanum hafi ég skilið þessar hugmyndir rétt.

Að öðru leyti er það ágætlega rakið í áliti 1. minni hluta allsherjarnefndar að þetta lítur út eins og verið sé að sniðganga niðurstöðu Hæstaréttar. Þetta hljómar eins og verið sé að sniðganga niðurstöðu Hæstaréttar. Og þetta er ekkert annað, það er verið að sniðganga niðurstöðu Hæstaréttar. Og það er ekki hlutverk Hæstaréttar að koma með einhverja ráðgjöf til þingsins um það hvernig eigi að bregðast við næst. Það var bara hlutverk Hæstaréttar að fjalla um kæruatriðið og niðurstaða Hæstaréttar um það er afskaplega skýr.

Það sem ég get tekið undir í máli þeirra sem styðja þessa tillögu er að við þurfum að endurskoða stjórnarskrána. Síðast þegar það verk var unnið í formlegu samstarfi flokkanna í þessari stjórnarskrárnefnd sem ég vísaði til þá var það einmitt ákvæðið um forseta Íslands sem var mest umdeilt. Það fór t.d. ekki á milli mála að fulltrúar Samfylkingarinnar í því starfi voru mjög andsnúnir því að ákvæði 26. gr. yrði endurskoðað. Þeir hafa síðan í millitíðinni skipt um skoðun. Þó að maður nefndi ekki neitt nema bara þetta eina atriði þá er það að minnsta kosti til vitnis um það að við breytingar á stjórnarskránni eiga menn að fara sér hægt. Menn eiga ekki að láta einhverjar uppákomur í stjórnmálunum verða tilefni til þess að gera grundvallarbreytingar á stjórnskipunarlögum og það er allt í lagi þó að það taki tíma að breyta stjórnarskránni. Henni hefur margoft verið breytt. Það er rangt sem oft er sagt á þingi og í þjóðmálaumræðunni að Alþingi hafi algerlega mistekist að breyta stjórnarskránni. Alþingi hefur ekki tekið kaflann um forsetann til endurskoðunar. Alþingi hefur t.d. ekki sett inn skýrari ákvæði um stöðu og hlutverk Hæstaréttar. Alþingi hefur ekki séð ástæðu til að kafa frekar ofan í þrískiptinguna og gera breytingar á því hvort ráðherra sitji á þingi o.s.frv. En Alþingi hefur margoft staðið fyrir breytingum á stjórnarskránni og það bara á umliðnum áratugum. (Gripið fram í: Mannréttindakaflann.) Já, já, bætt við mannréttindakaflanum og tekið kjördæmaskipunina til endurskoðunar o.s.frv.

Ég vil líka segja það í lok máls míns að stjórnarskráin er ekki rót þess vanda sem við erum að kljást við. Það var ekki vegna stjórnarskrárinnar sem efnahagskrísa kom á Íslandi. Það sem einhver sérstök ástæða fyrir því að menn þurfi að hafa hraðar hendur eða þá að vísa verkefninu frá sér af þinginu stenst enga skoðun, þær orsakir liggja annars staðar í samfélaginu og hafa ekkert með stjórnarskrána sem slíka að gera.