139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[23:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við verðum að gera ráð fyrir því að sú staða geti komið upp að tillagan sem hér liggur fyrir nái ekki fram að ganga. Þá þarf að hugsa einhverja aðra leiki, ef ég má nota það orð þó að verið sé að tala um stjórnarskrá, þá þarf að hugsa fram í tímann. Hvað gæti þá tekið við?

Ef þessi tillaga fellur hér á þingi, hvað þýðir það? Ætlum við þá að fara fram með nýtt stjórnlagaþing eða ætla þingmenn að sýna þann þroska að setjast niður og ræða málin? Eru aðrar leiðir betri í þeirri stöðu sem þá er upp komin, og setja svo mögulega afurð, eins og hér hefur verið rætt, til þjóðarinnar? Ég held að menn þurfi að gera ráð fyrir þeim möguleika að þetta fari einfaldlega ekki í gegnum þingið. Verður þá hnoðast með aðra tillögu í gegn eða verður sest niður og hlutirnir skoðaðir? Ég er að kalla eftir áliti eða skoðunum hv. þingmanns á því.

Ég vil hins vegar taka undir með hv. þingmanni um það að ég held að það sé gott að vera íhaldssamur varðandi breytingar á plaggi eins og stjórnarskránni. Að sama skapi verðum við að vera reiðubúin að laga hana að breyttum tímum og þróun samfélags og ýmsu öðru. Ég tel að við höfum sýnt það, þingmenn, með umfjöllun um t.d. náttúruauðlindir, (Forseti hringir.) að við erum …