139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

jafnréttismál -- atvinnumál -- umsókn að ESB o.fl.

[14:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég taka undir þær gagnrýnisraddir sem hér hafa verið um þann úrskurð sem var kveðinn upp um að hæstv. forsætisráðherra landsins hafi brotið jafnréttislög. Ráðherra hlýtur að koma hingað og gera okkur grein fyrir því. Ég hef þegar farið fram á utandagskrárumræðu um málið þannig að ráðherrann geti komið og fjallað um það við okkur og útskýrt málið. Það er alveg ljóst að miðað við hennar fyrri orð mun hún væntanlega segja af sér þannig að ég þarf að ræða þetta við einhvern annan. Við skulum sjá hvort hún uppfylli þau orð sem hún hefur áður látið falla, sá ágæti ráðherra.

Mig langar hins vegar aðeins að koma inn á það sem var rætt hér síðast. Ein af skýringunum sem hv. þm. Atli Gíslason gaf á brotthvarfi sínu úr þingflokki Vinstri grænna var að þetta Evrópumál væri komið langt út fyrir það umboð sem Alþingi hafði veitt á sínum tíma. Því er mjög sérstakt að heyra þingflokksformann Vinstri grænna standa upp og halda því fram að þetta sé allt á réttri leið. Það er alveg ljóst að þeir eru einfaldlega ósammála, þessir ágætu menn.

Frú forseti. Mig langar að endingu til að kasta fram einni spurningu til þingheims í ljósi umræðna sem hafa verið undanfarið í fjölmiðlum: Hvað eiga þeir sameiginlegt, Karl V. Matthíasson, Kristinn H. Gunnarsson, Jón Magnússon, Gunnar Örlygsson og Steingrímur Jóhann Sigfússon? Þeir hafa allir gengið úr þingflokkum án þess að segja af sér þingmennsku. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)