139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

kynning fjármálaráðuneytisins á Icesave.

[15:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þann 11. mars sl. var frétt í Fréttablaðinu — ég hef nú ætlað að spyrja hæstv. ráðherra út í þetta nú í svolítinn tíma en ekki komist í það. Fréttin var á þá leið að fjármálaráðuneytið ætli sér að standa að kynningum á Icesave-kosningunum. Í Fréttablaðinu stendur, með leyfi forseta:

„Horft er til þess að kynningarefnið verði unnið í fjármálaráðuneytinu og auglýsingastofu falin framsetning.“

Ég fór að velta fyrir mér hvort það geti verið að hæstv. fjármálaráðherra hafi ætlað sér að fara fram hjá hæstv. innanríkisráðherra, sem klárlega ber ábyrgð á þessu máli eins og við höfum nú séð í dag. Er það þannig að hæstv. fjármálaráðherra hafi ætlað sér að fara fram hjá innanríkisráðherranum með þetta kynningarefni? Og telur hæstv. fjármálaráðherra að það hafi verið trúverðugt að kynningarefnið hefur verið unnið í fjármálaráðuneytinu og einhverjum aðila falið að setja það upp samkvæmt forskrift ráðuneytisins, eins og ég skil þessa frétt?

Þegar kemur að því að kynna þetta stóra og merka mál þarf að gæta hlutleysis og því leyfi ég mér að hafa verulegar efasemdir um það, frú forseti, að slíkt hlutleysi geti átt sér stað í ráðuneyti hæstv. fjármálaráðherra sem hefur mjög barist fyrir því að fá að greiða þessar skuldir sem eru ekki okkar skuldir, takið eftir, hv. þingmenn.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra vegna þessarar fréttar og vegna þessa máls og hvernig hlutirnir hafa þróast í framhaldinu: Kemur fjármálaráðuneytið með einhverjum hætti að starfsemi þessa Áfram-hóps sem er að berjast fyrir því að Icesave verði samþykkt? Ef svo er, með hvaða hætti kemur ráðuneytið að starfsemi hópsins, með ráðgjöf eða einhverju slíku?