139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

mengunarmál aflþynnuverksmiðjunnar Becromal við Eyjafjörð.

[16:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að mér hafi, eins og afskaplega mörgum, verið nokkuð brugðið í síðustu viku þegar fréttir bárust af því atviki sem hér er til umræðu. Ég játa það hins vegar líka að mér hefur orðið nokkuð rórra eftir að niðurstöður hafa komið fram sem gefa til kynna að umhverfisáhrif hafi ekki verið með þeim hætti sem óttast var í fyrstu, og vísa ég þar með til athugunar Matís á sýrustigi í sjó í Eyjafirði sem virðist gefa til kynna að þarna hafi ekki orðið alvarleg umhverfisáhrif, sem er auðvitað gott.

Engu að síður er ljóst að þarna var ekki allt eins og það átti að vera, að fyrirtækið sinnti um skeið ekki skyldum sínum samkvæmt starfsleyfi. Það kallar á frekari skoðun og frekari eftirfylgni af hálfu stjórnvalda. Miðað við fréttir sem hafa borist frá stjórn fyrirtækisins nú síðustu daga hefur það þegar gripið til aðgerða sem eiga að koma til móts við athugasemdir Umhverfisstofnunar. Það skiptir þá máli að því sé fylgt eftir með þeim hætti að tryggt sé að atvik af þessu tagi endurtaki sig ekki.

Þarna er auðvitað um að ræða áminningu um að það þarf að setja skýrar reglur á sviði eins og þessu. Það þarf að fylgja þeim eftir og það þarf að vera fyrir hendi kerfi sem gerir það að verkum að hægt sé að bregðast við ef eitthvað fer úrskeiðis. Ég reikna með að umhverfisráðuneytið hljóti að hafa forgöngu um að fara í þá skoðun nú á næstunni þannig að allar staðreyndir þessa tiltekna máls liggi fyrir og eins að unnt sé að draga þá lærdóma af því að hægt sé að (Forseti hringir.) koma, eftir því sem kostur er, í veg fyrir að atvik af þessu tagi endurtaki sig.