139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það væri vel ef hv. þingmenn stjórnarliðsins, og þá sérstaklega hv. þingmenn Samfylkingarinnar, mundu nú hlusta og læra. Það er einkennilegt að hv. þingmaður skuli hafa farið í andsvar við mig áðan án þess að hafa hlustað á ræðu mína, hvað þá meira. Þetta er alvörumál, málin gerast ekkert stærri og menn verða að þekkja grunnatriðin í því. Hv. þingmaður benti á það, af því að það er ekki hægt að nálgast þetta með þeim hætti að um sé að ræða einhverja neytendavernd, þegar menn ábyrgjast innstæður upp á einar 16 millj. kr., það er engin neytendavernd, það er eitthvað allt annað.

Okkur hefur nokkurn veginn, í það minnsta miklu betur en sumum þjóðum Evrópusambandsins, t.d. Írum, tekist að koma í veg fyrir að skattgreiðendur tækju fallið af bankahruninu beint (Gripið fram í.) — já, mest hefur farið á erlendu kröfuhafana. Að vísu var ég að fá svar við fyrirspurn hjá hæstv. fjármálaráðherra í dag um það að 250 milljarðar eru farnir í banka og sparisjóði. Það er eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði, eiginlega án nokkurrar umræðu.

Sem betur fer var hins vegar felld tillaga núverandi hæstv. ráðherra á sínum tíma þegar þeir voru að vernda fjármagnið. Þeir voru ekki að vernda litla sparifjáreigandann með þessari glórulausu tillögu.

Fyrrverandi þingmaður, Kristinn H. Gunnarsson — nú verð ég að fara eftir minni — reiknaði út hver skuldbindingin hefði verið. Ef ég man rétt voru það 700 milljarðar — en það er alveg út í loftið — sem hefðu komið til viðbótar ef þessi fullkomlega glórulausa tillaga hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. ráðherra Ögmundar Jónassonar og hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar hefði illu heilli verið samþykkt. Sem betur fer held ég að hv. þm. Pétur H. Blöndal ásamt öðrum hafi komið í veg fyrir (Forseti hringir.) að þessi skelfilega tillaga væri samþykkt.