139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[15:53]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson gerði ágætlega grein fyrir rökum mínum fyrir þessari breytingartillögu og þakka ég honum fyrir það. En hvað varðar þær fullyrðingar tryggingafélaganna hér á landi að efnaminna fólk og millitekjufólk kaupi frekar slíkar tryggingar þá velti ég því fyrir mér hvort ástæðan sé sú að þeir hópar hafi ekki gert sér í sama mæli grein fyrir því að um skattskyldar bótagreiðslur er að ræða eins og t.d. efnameira fólk. Það gæti verið ein ástæðan fyrir þessu.

Rannsóknir sem ég hef séð á notkun tekjuhópa á tryggingum til viðbótar við tryggingar almannakerfisins sýna að það eru fyrst og fremst millitekjuhópar og sérstaklega tekjuhærri hóparnir sem tryggja sig utan kerfis. Það er vissulega merkilegt sem fram kom í máli hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar að það séu fyrst og fremst hinir efnaminni hér á landi sem kaupa sér tryggingar. Ég velti því mjög svo fyrir mér hvort þetta séu í raun og veru réttar upplýsingar.