139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

breytingar á Stjórnarráðinu.

[10:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Fram hefur komið í fréttum að hæstv. forsætisráðherra fór fram á umboð í ríkisstjórn til að geta sjálf gert ráðstafanir til breytinga á Stjórnarráðinu. Nú er ljóst að a.m.k. einn hæstv. ráðherra, Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, greiddi atkvæði gegn þessari tillögu og hæstv. innanríkisráðherra gerði við þær alvarlegar athugasemdir. Það virðist jafnframt ólíklegt að meiri hluti sé fyrir málinu í þingflokki Vinstri grænna eða a.m.k. í þinginu.

Má treysta því að hæstv. forsætisráðherra muni ekki reyna að koma þessu máli fram á yfirstandandi þingi með afbrigðum? Hver er staða mála varðandi atvinnuvegaráðuneytið? Hyggst hæstv. forsætisráðherra halda sig við áform um stofnun slíks ráðuneytis og þá hvenær? Hefur hæstv. forsætisráðherra í bígerð aðrar veigamiklar breytingar á Stjórnarráðinu og hvenær gerir þá hæstv. forsætisráðherra ráð fyrir að af þeim breytingum verði?