139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[17:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var afskaplega athyglisverð fyrirspurn og ég þakka kærlega fyrir hana. Það er hárrétt, það er verið að venja fólk við það að því sé alltaf bjargað. Mér sýnist að velferðarkerfi nútímans gangi út á það að reyna að útiloka alla áhættu. Menn eiga bara ekki að verða veikir, menn eiga ekki að verða sjúkir, menn eiga ekki að detta, menn eiga ekki að gera neitt, menn eiga ekki að tapa á hlutabréfum, menn eiga ekki að tapa neinu. Það er alltaf verið að búa til heim sem er áhættulaus.

En heimurinn er fullur af áhættum, það er bara þannig, og fólk lendir í þeim. Og það er hárrétt að maður á ekki alltaf að bjarga börnunum sínum. Þau eiga ekki að lifa við það að halda að heimurinn sé áhættulaus, hann er nefnilega fullur af áhættum. Það er áhætta í umferðinni, það er áhætta í flugrekstri, það er áhætta í rekstri fyrirtækja eins og við Íslendingar höfum fengið að kenna á núna í hruninu.

Þetta er rétt, það sem er verið að gera með þessu frumvarpi er nákvæmlega þetta. Það er verið að segja við fólk: Við erum búin að tryggja innstæður. Hér hafa komið upp hv. þingmenn stjórnarliða og sagt bara mjög létt og auðveldlega: Við ætlum að tryggja innstæður. Við ætlum að sjá til þess að fólk tapi ekki og ef einhver stór banki fer á hausinn kemur ríkið að sjálfsögðu og bjargar honum. En það er nefnilega ekki rétt. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni þegar hún sagði að stærri bönkum væri alltaf bjargað. Lehman-bankinn var ekki lítill, hann var risastór og hann fór samt á hausinn, hann var samt látinn fara á hausinn og það hafði afleiðingar um allan heim, m.a. á Íslandi. Þrír stærstu bankarnir á Íslandi byrjuðu á því að hrynja, þeim var ekki bjargað, enda ekki viðbjargandi. Það er ekki einu sinni tryggt að stærstu bönkunum verði bjargað þó að hv. stjórnarliðar segi það hér í ræðustól.