139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

kostnaður við Icesave-samninganefnd.

[10:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Nú er langt um liðið síðan fjölmiðlar leituðu svara hjá hæstv. fjármálaráðherra um kostnað við samninganefnd Íslands vegna Icesave-málsins. Skömmu eftir að þær fyrirspurnir bárust bar einn hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fram skriflega fyrirspurn til hæstv. ráðherra um þennan kostnað. Ráðherrann hefur síðan svarað því til að hann vilji byrja á því að veita svör í þinginu áður en fjölmiðlum eru veitt svör í þessu máli og fengið fyrir það ákúrur frá umboðsmanni Alþingis.

Nú ætla ég að gefa hæstv. fjármálaráðherra tækifæri til að svara þessu máli í þinginu sem er orðið nokkuð aðkallandi að fá svör við. Það eru margir mánuðir síðan samninganefnd Íslands í Icesave-málinu lauk störfum svo öll gögn þar að lútandi hljóta að vera fyrirliggjandi nema við hafi bæst einhver verkefni frá því að nefndin lauk formlega störfum. Engu að síður hlýtur hæstv. fjármálaráðherra að gera sér nokkurn veginn grein fyrir því hvar kostnaðurinn liggur og hversu mikill hann er.

Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Um það bil hversu mikill er kostnaðurinn vegna samninganefndar Íslands í Icesave-málinu? Hefur einhver kostnaður bæst við eftir að nefndin lauk formlega störfum í desember á síðasta ári?