139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

evran og efnahagskreppan.

[10:51]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Frú forseti. Ég þarf að benda hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra á þá staðreynd að störfum á Írlandi hefur fækkað meira en hér á landi. Ástæðan er m.a. sú að evran hefur verið allt of sterk fyrir írskt atvinnulíf. Auk þess má rekja skuldavanda íslenskra heimila og fyrirtækja til verðtryggingarinnar og verðtryggingin hefur ekkert með gjaldmiðil að gera, heldur val okkar hér á landi. (Gripið fram í.)

Að lokum má geta þess að írskir fjármagnseigendur flýja nú unnvörpum írskt efnahagskerfi og geta það vegna þess að þeir eru með sínar eignir í evrum en ekki innlendum gjaldmiðli. Það hefur orðið til þess að írskur almenningur er mikið að velta því fyrir sér hvort það sé kominn tími til að yfirgefa myntbandalagið (Forseti hringir.) og taka upp írskt pund aftur.