139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[13:30]
Horfa

Frsm. minni hluta menntmn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns, áður en ég geri grein fyrir nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar, þakka hv. menntamálanefnd fyrir þá vinnu sem þar hefur verið innt af hendi. Hún hefur verið öflug, fagleg og á mörgu hefur verið tekið. Minni hluti nefndarinnar sem stendur að þessu áliti, sem er sú sem hér stendur og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, getur að flestu leyti tekið undir þær breytingartillögur sem fram hafa komið og þá vinnu sem unnin hefur verið til að betrumbæta frumvarpið sem hér liggur fyrir. Engu að síður standa út af nokkur atriði þar sem við erum ekki samstiga meiri hluta menntamálanefndar og mun ég gera grein fyrir þeim atriðum í ræðu minni. Það er ljóst að margir komu fyrir nefndina og verða þeir ekki nafngreindir og jafnframt bárust umsagnir frá æði mörgum.

Þetta frumvarp, sem við förum hér í 2. umr. um, var upphaflega lagt fyrir á 138. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og var síðan lagt fram með nokkrum breytingum. Í umsögnum sem og í máli gesta á fundum nefndarinnar komu fram ýmis sjónarmið sem nefndin tók til skoðunar og íhugaði við meðferð málsins. Að auki höfðu borist 33 umsagnir vegna málsins á síðasta löggjafarþingi sem nefndin kynnti sér. Margar voru samhljóða þeim sem komu svo aftur inn með hinu nýja frumvarpi.

Ekki verður um það deilt, frú forseti, að það er skynsamlegt og rétt að setja samræmda rammalöggjöf um starfsemi fjölmiðla hér á landi. Markmið slíkrar löggjafar hlýtur annars vegar að vera að styrkja starfsemi fjölmiðla, efla frjálsa og óháða fjölmiðlun, og hins vegar að auðvelda almenningi aðgang að upplýsingum og fjölmiðlum. Minni hluti menntamálanefndar er því sammála þeim markmiðum sem koma fram í 1. gr. frumvarpsins um að stuðla að tjáningarfrelsi, rétti til upplýsinga, fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum sem og að efla vernd neytenda.

Frú forseti. Hér er ljóst að klukkan er ekki virk og þætti ræðumanni vænt um að því yrði kippt í liðinni.

Að mati minni hluta nær frumvarpið hins vegar ekki þessum markmiðum og í sumum tilfellum teljum við að gengið sé þvert á þau. Frumvarpið tekur í raun lítið á yfirlýstum megintilgangi sínum, þ.e. að stuðla að fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlum. Fjölmiðlar eru háðir efnahagssveiflum sem aftur kemur niður á sjálfstæði þeirra og möguleikanum fyrir marga (fjölræði) til að búa til fjölbreytt ritstjórnarefni (fjölbreytni). Við teljum að fjölbreytni og fjölræði í þeirri mynd sem óskað er eftir, meðal annars með tilliti til eignarhalds á fjölmiðlum, nái ekki alveg fram að ganga í því frumvarpi sem hér er lagt fram. Það kemur heldur ekki fram í frumvarpinu með hvaða hætti stuðla eigi að eða auka framboð á vönduðu og fjölbreyttu ritstjórnarefni.

Það hníga öll rök að því, frú forseti, að tryggja eðlilega og sanngjarna samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Við teljum að lítil tilraun eða engin sér gerð í frumvarpinu til að jafna samkeppnisstöðu fjölmiðla og fremur er þrengt að starfsemi þeirra. Gera verður alvarlega athugasemd við að lagt sé fram frumvarp til laga um rammalöggjöf um fjölmiðla án þess að með nokkrum hætti sé tekið á málefnum Ríkisútvarpsins ohf. Verði frumvarpið að lögum verður til enn ein eftirlitsnefnd eða stofnun hins opinbera sem á að sinna eftirlitshlutverki sem aðrar opinberar stofnanir hafa þegar með höndum. Það er ljóst, frú forseti, að stór hluti frumvarpsins á betur heima í öðrum lögum.

Í umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvarpið kemur fram hörð gagnrýni á að ekki skuli með neinum hætti tekið á samkeppnishömlum á fjölmiðlamarkaði sem eru afleiðing af stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Vitnað er til álits eftirlitsins nr. 4/2008, um samkeppnishömlur, sem stafa af stöðu og háttsemi Ríkisútvarpsins á markaði fyrir sölu auglýsinga í ljósvakamiðlum. Þar kemur meðal annars fram að Ríkisútvarpið hefur boðið yfir 80% afslátt af listaverði. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þar til annað kemur í ljós verður að ganga að því sem gefnu í þessu máli að opinberlega birt kjör RÚV á auglýsingum endurspegli kostnað RÚV og eðlilega álagningu. Þegar litið er til þessa og haft er í huga að enginn aðskilnaður er fyrir hendi hjá RÚV sem kemur í veg fyrir að opinbert fé sé notað til þess að niðurgreiða auglýsingastarfsemi, verður að telja að þessir miklu afslættir RÚV veiti ríkar vísbendingar um skaðleg undirboð sem séu til þess fallin að raska samkeppni frá keppinautum sem engra ríkisstyrkja njóta.“

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sérstaklega bent á að undirboð fyrirtækja sem veita útvarpsþjónustu í almannaþágu geti ekki samræmst hlutverki þeirra og mundi undir öllum kringumstæðum hafa áhrif á viðskiptakjör á markaðnum og samkeppni sem færi gegn almannahagsmunum. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er því einföld, með leyfi forseta:

„Telja verður því að þessi háttsemi RÚV feli ekki í sér sanngjarna samkeppni í skilningi EES/EB-samkeppnisréttar.“

Frú forseti. Samkeppniseftirlitið bendir einnig á að markaður fyrir kaup á sjónvarpsefni sé nátengdur markaði fyrir sölu auglýsinga. Með þeirri forgjöf sem Ríkisútvarpið nýtur með opinberum gjöldum er því gert kleift að byggja upp dagskrá með vinsælu innlendu og erlendu sjónvarpsefni og skapa aukið áhorf. „Með auknu áhorfi er ljóst að auðveldara er að selja auglýsingar enda ná auglýsendur þá til fleiri neytenda og auglýsingarnar því verðmætari,“ segir í áðurnefndu áliti Samkeppniseftirlitsins. Þannig nýtur Ríkisútvarpið forgjafar í formi opinberra gjalda sem skekkir samkeppnisstöðu á markaði jafnt er varðar dagskrárefni og auglýsingar.

Í EES/EB-samkeppnisrétti er talið mikilvægt að fyrirtæki sem veita útvarpsþjónustu í almannaþágu noti ekki almannafé til þess að yfirbjóða einkarekna keppinauta við kaup á sýningarrétti efnis. Með því verður keppinautum ýtt út af markaðinum. Samkeppniseftirlitið segir, með leyfi forseta, að með lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., hafi verið skapaðar umtalsverðar samkeppnishömlur:

„… með því fyrirkomulagi að veita RÚV tekjur af almannafé jafnframt því að heimila fyrirtækinu að starfa áfram á markaði fyrir sölu auglýsinga og kostunar í útvarpi. Það rekstrarfyrirkomulag RÚV gengur gegn því markmiði samkeppnislaga að efla virka samkeppni í viðskiptum þar sem það stuðlar að samkeppnislegri mismunun á markaði fyrir birtingu auglýsinga og markaði fyrir kostun bæði í sjónvarpi og hljóðvarpi.“

Frú forseti. Mér er kunnugt um og fleirum hér í þessum þingsal að til stóð að leggja fram nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. á þessu þingi. Það verður ekki. Við teljum hins vegar að réttast hefði verið að samhliða þessum fjölmiðlalögum hefðu legið fyrir lög um Ríkisútvarpið ohf.

Ljóst er að fyrirkomulag á fjölmiðlamarkaði hefur leitt til alvarlegrar takmörkunar á samkeppni og á því er í engu tekið í þessu frumvarpi til laga um fjölmiðla. Slíkt er að mati minni hluta gagnrýnisvert og ekki til þess fallið að styrkja rekstur íslenskra fjölmiðla og auka sjálfstæði þeirra, hvort heldur er á sviði ljósvaka eða prent- og netmiðlunar.

Álit Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2008 er skýrt. Eftirlitið telur að þátttaka RÚV á auglýsingamarkaði í sjónvarpi sé veigamikil ástæða þess að ekki eru til fleiri öflugri sjónvarpsstöðvar hér á landi en raun ber vitni og eignarhald þeirra ekki dreifðara.

Eins og áður segir leggur Samkeppniseftirlitið áherslu á að komið verði í veg fyrir þá miklu samkeppnislegu mismunun sem leiðir af óbreyttri starfsemi Ríkisútvarpsins og beindi eftirlitið eftirfarandi athugasemdum til mennta- og menningarmálaráðherra, með leyfi forseta:

„1. Ljóst er að fullur samkeppnislegur jöfnuður næst ef RÚV hverfur af auglýsingamarkaði og starfsemi þess yrði alfarið kostuð af opinberum fjárframlögum. Með hliðsjón af núverandi efnahagsástandi getur slík aðgerð stuðlað að því að einkareknir ljósvakamiðlar geti starfað áfram. Er þetta til þess fallið að tryggja valkosti almennings á sviði fjölmiðlunar. Hins vegar verður að hafa í huga að dreifikerfi einkarekinna stöðva ná almennt ekki til jafnstórs hluta landsins og RÚV. Með hliðsjón af öllu framangreindu er því æskilegt að mörkuð verði stefna sem miðar að því að RÚV hætti þessari starfsemi sem fullgildur keppinautur þegar aðstæður þykja leyfa.

2. Telji menntamálaráðherra og/eða löggjafinn ekki tækt að RÚV hverfi af markaði fyrir sölu auglýsinga í útvarpi, eða á meðan verið er að koma því svo fyrir að RÚV hverfi af umræddum markaði, telur Samkeppniseftirlitið mikilvægt að verulega verði dregið úr umsvifum félagsins á markaðnum og félaginu settar skýrar reglur sem takmarka umrædda starfsemi þess. Slíkar reglur þurfa að vera skilvirkar, einfaldar og gagnsæjar þannig að auðvelt verði að fylgja þeim eftir bæði fyrir félagið sjálft, keppinauta þess og til þess bæra eftirlitsaðila. Nauðsynlegt er að reglurnar feli m.a. í sér að sett verði ófrávíkjanleg gjaldskrá sem lúti staðfestingu og eftirliti, svokallaðar fríbirtingar verði óheimilar, auglýsingatíma verði settar skorður svo og allri markaðssókn, óheimilt verði að birta auglýsingar inni í dagskrárefni og kostun verði óheimil enda skapar hún ógagnsæi og er til þess fallin að mismuna viðskiptamönnum félagsins.“

Minni hluti telur það ámælisvert að ekki skuli vera gerð tilraun til að taka tillit til athugasemda Samkeppniseftirlitsins við samningu frumvarps til laga um fjölmiðla. Þar með verður þeim ójafna leik sem ríkir milli einkarekinna fjölmiðla og Ríkisútvarpsins haldið áfram. Boðað frumvarp um breytingar á núgildandi lögum um Ríkisútvarpið ohf. hefði þurft að fylgja þeirri rammalöggjöf um fjölmiðla sem stefnt er að í frumvarpinu og er það hér með ítrekað.

Þetta var og er einn af stærri ásteytingarsteinum milli meiri hluta og minni hluta. Meiri hlutinn hefur reyndar, og kom það fram í framsöguræðu hv. þm. Skúla Helgasonar, sagt að við endurskoðun á lögum um Ríkisútvarpið muni, í það minnsta hv. formaður menntamálanefndar, gengið að því með opnum hug að skoða það sem Samkeppniseftirlitið hefur lagt fram og á hvern hátt tekið verði á Ríkisútvarpinu og ferð þess á auglýsingamarkaði.

Í þessu frumvarpi eru æðimörg hugtök og orðnotkun um margt sérstök fyrir okkar íslensku. Kann að vera að um sé að ræða beinar þýðingar úr erlendum tungumálum og það tæknimál sem þar er ekki til á íslenskri tungu og beinar þýðingar verða því að veruleika. Hins vegar hefur verið rætt um það oftar en ekki að í löggjöf eigi að vera einfalt tungumál, gegnsætt og skýrt.

Minni hluti er sammála þeim þáttum í nefndaráliti meiri hlutans sem tekur til hugtaka og orðnotkunar og um mikilvægi þess að málið sé einfalt, skýrt og vandað og að íslenskir fjölmiðlar marki sér málstefnu og leggi sitt af mörkum til að efla og þróa íslenska tungu.

Einnig eru lagðar til breytingar á tveimur hugtökum með framangreind stefnumið í huga eins og að hugtakið „fjölmiðlaveita“ komi í stað tungubrjótsins „fjölmiðlaþjónustuveitandi“ og hugtakið „viðskiptaboð“ komi í stað hugtaksins „viðskiptaorðsending“ en til þeirra teljast meðal annars auglýsingar, kostun og vöruinnsetning. Þessar breytingar tvær eru af hinu góða. Bæði orðin, hugtökin, sem koma ný inn, eru þjálli og falla betur að okkar ágætu tungu.

Í frumvarpinu er vikið töluvert að ritstjórnarlegu sjálfstæði og vernd heimildarmanna. Minni hluti tekur undir með meiri hluta menntamálanefndar þar sem kveðið er á um að fjölmiðlaveita setji sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði því að sjálfstæði ritstjórna er nauðsynleg forsenda hlutlægrar fjölmiðlunar. Slíkar reglur eiga að gegna því hlutverki að skapa fréttamönnum skjól gagnvart mögulegum tilraunum eigenda viðkomandi fjölmiðils til að hafa áhrif á fréttaumfjöllun eða ritstjórnarstefnu miðilsins. Á það hvort tveggja við Ríkisútvarpið ohf. sem og einkarekna fjölmiðla hér á landi. Sá galli er hins vegar á þeirri leið sem valin er í frumvarpinu, til þess að ná þessu æskilega markmiði, að óvíst er að ákvæðið nái tilgangi sínum því að frumvarpið mælir ekki fyrir um að tilraunir eigenda fjölmiðla til að hafa áhrif á fréttaumfjöllun eða ritstjórnarstefnu hafi afleiðingar eða leiði til viðurlaga fyrir þann sem það gerir. Því gengur þetta ákvæði að því leyti skammt og má í raun segja að það sé fremur táknrænt en að það veiti starfsmönnum fjölmiðla þá raunverulegu vernd sem að er stefnt.

Þess ber þó að geta að á nefndadögum fjallaði menntamálanefnd um hluta af breytingartillögum sem menntamálanefnd hyggst leggja til við 3. umr. því að óskað er eftir því að frumvarpið gangi aftur til nefndar á milli umræðna. Þetta nefndarálit var ritað þann 21. mars sl. og er mér kunnugt um og ljúft að segja frá því að að öllum líkindum mun koma fram breytingartillaga sem styður það ákvæði um ritstjórnarlegt sjálfstæði og hugsanleg viðurlög við því ef ekki verður við því orðið. Því ber að fagna, frú forseti.

Í 25. gr. frumvarpsins er fjallað um vernd heimildarmanna, en samkvæmt 3. mgr. hennar verður heimildarvernd samkvæmt 1. og 2. mgr. einungis aflétt með samþykki viðkomandi heimildarmanns eða höfundar eða á grundvelli 119. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Ef ég heyrði rétt nefndi formaður í framsöguræðu sinni — í það minnsta var það rætt á nefndadögum að hugsanlega verði lögð til breyting í allsherjarnefnd á 119. gr. laga um meðferð sakamála til að tryggja enn frekar vernd heimildarmanna. Verður þá að koma í ljós á hvern hátt allsherjarnefnd fjallar um þá ósk þegar hún hefur verið lögð fram.

Sú athugasemd kom frá umsagnaraðila að með þessu ákvæði væri í raun verið að rýra vernd heimildarmanna. Það er ekki skilningur okkar sem sátum í nefndinni, hvorki meiri hluta né minni hluta, að svo sé heldur er þvert á móti talið að í ákvæðinu felist mikilvæg réttarbót fyrir starfsmenn fjölmiðla. Fram kemur í 3. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála að telji dómari að vitnisburður geti ráðið úrslitum um niðurstöðu máls geti hann ákveðið að vitni skuli svara spurningum um tiltekið atriði, enda séu ríkari — ég endurtek: ríkari — hagsmunir af því að spurningunum verði svarað en trúnaði sé haldið. Af þessu leiðir að dómari yrði að leggja annars vegar mat á trúnaðarsambandið og eðli þess og hins vegar alvarleika máls. Því alvarlegri sem sakargiftir eru þeim mun líklegra er að trúnaði verði aflétt og því ríkari sem trúnaður er því líklegra er að hann haldi. Minni hluti tekur undir þau sjónarmið meiri hlutans.

Minni hluti tekur undir að lykilhlutverk fjölmiðla í lýðræðissamfélagi er að upplýsa almenning, vera vettvangur gagnrýninnar þjóðfélagsumræðu og veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald. Mikilvægt er að fjölmiðlar haldi í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana.

Mönnum hefur verð tíðrætt um rannsóknarskýrslu Alþingis frá því að hún kom út. Þar er m.a. tekið á fjölmiðlum á Íslandi, einkareknum sem og Ríkisútvarpinu, og talið að margt hefði betur mátt fara. Mér virðist ekki mikið hafa breyst í fjölmiðlaumræðu í dag og sé ekki hvernig fjölmiðlar almennt á Íslandi hafa tekið niðurstöðum rannsóknarskýrslu Alþingis, skoðað þá niðurstöðu í eigin ranni og breytt einhverju í vinnubrögðum sínum. Í mínum huga hefur lítið breyst í fjölmiðlaumræðu dagsins í dag frá því fyrir hrun og er það miður og ljóst að þar þurfa menn að taka til hendinni.

Í nefndinni voru rædd ítarlega mörk tjáningarfrelsis fjölmiðla annars vegar og friðhelgi einkalífs hins vegar, en þau réttindi eru varin í stjórnarskrá lýðveldisins sem og í þeim alþjóðasamningum sem Ísland hefur skuldbundið sig við. Við tökum undir að tjáningarfrelsi þurfi að virða en menn verða að gæta sín þegar kemur að friðhelgi einkalífs. Við verðum að geta viðhaldið frjálsri lýðræðislegri umræðu um málefni er varða almenning en við þurfum jafnframt að gæta að friðhelgi einkalífs.

Ég tek undir skilgreiningu hv. formanns menntamálanefndar á hatursáróðri. Í 27. gr. eru nýmæli hvað það varðar þar sem lögð er til sú breyting á frumvarpinu að færa ákvæði um bann við hvatningu um refsiverðrar háttsemi úr 26. gr. í 27. gr. þar sem það er mat meiri hlutans að þar eigi það fremur heima en sem hluti af lýðræðislegum grundvallarreglum.

Okkur í minni hluta þykir rétt að árétta að hatursáróður er skilgreindur sem tal, texti, tjáning, hegðun og/eða framkoma sem birtist í texta, hljóði og/eða mynd þar sem hvatt er til ofbeldis, fordóma og/eða fordómafullrar hegðunar gegn einstaklingi eða hópi af fólki og/eða með því að vanvirða, smána, hræða og/eða ógna einstaklingi eða hópi. Jafnframt má sjá af þessari skilgreiningu að það er ekki hægt að fella hefðbundna gagnrýni, skoðanaágreining eða stjórnmálaumræður í fjölmiðlum undir skilgreiningu á þessu tvennu.

Í vernd barna gegn auglýsingum og skaðlegu efni kom fram fyrir nefndinni sú skoðun að 41. gr. frumvarpsins færi gegn tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrár Íslands, samanber 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem bannákvæði greinarinnar uppfyllti ekki skilyrði 3. mgr. téðrar greinar um takmarkanir auk þess sem nægilegs meðalhófs væri ekki gætt. Í 28. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um vernd barna gegn skaðlegu efni og í 38. gr. frumvarpsins er að finna sérreglu. Minni hlutinn tekur fyrir sitt leyti undir að vernda þurfi hagsmuni barna og að hagsmunir þeirra verði ávallt settir í forgang en bendir á að takmarkanir á auglýsingum kringum sýningar á barnaefni kunni að brjóta í bága við 73. gr. stjórnarskrár Íslands og kunni að leiða til þess að framboð á slíku dagskrárefni, í það minnsta íslensku, verði skert. Við ítrekum að hagsmuni barna eigi að vernda og ætíð eigi að setja þá í forgang, en við getum ekki fallist á að til þess að svo megi verða þurfi að binda í lög takmarkanir á auglýsingum með þeim hætti sem hér er ætlað að gera.

Þá er komið að því atriði sem kannski stærstur ágreiningur er um, frú forseti, það er stjórnsýslukaflinn.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var bent á mikilvægi þess að koma á faglegu eftirliti með fjölmiðlun með því að tryggja að þeir ræki af ábyrgð hlutverk sitt í lýðræðisríki með almannahagsmuni að leiðarljósi. Viðbrögð löggjafans virðast vera að setja á laggirnar stjórnsýslunefnd til að sinna þessu hlutverki. Í fyrra frumvarpinu var í III. kafla, um stjórnsýslu, gert ráð fyrir Fjölmiðlastofu. Nú er því einu breytt í þessum kafla að hún verði nefnd fjölmiðlanefnd. Valdsvið fjölmiðlanefndar verður víðtækt og getur haft mikil áhrif á starfsemi fjölmiðla. Ákvarðanir fjölmiðlanefndar verða fullnaðarúrlausnir innan stjórnsýslunnar og sæta ekki stjórnsýslukæru. Vilji forráðamenn fjölmiðils ekki una úrskurði fjölmiðlanefndar er þeim nauðugur einn kostur að höfða mál fyrir dómstólum með viðeigandi kostnaði.

Mig langar, frú forseti, að vitna í frumvarpið sjálft á bls. 118, um greiningar, þar sem sagt er, með leyfi forseta:

„Í upphaflegum tillögum frá árinu 2005 að nýrri tilskipun Evrópusambandsins um breytingu á sjónvarpstilskipuninni frá 1989, með síðari breytingum, var lengst af gert ráð fyrir sérstöku ákvæði þess efnis að aðildarríkjunum væri skylt að tryggja sjálfstæði sérstakrar stjórnsýslustofnunar …“

Hins vegar í lokagerð hljóð- og myndtilskipunar er ekki lengur gerð bein krafa um tilvist slíkrar stofnunar en allt að einu eru fyrirmæli tilskipunar með þeim hætti að það er óhjákvæmilegt að setja á laggirnar slíka stofnun, eftir því sem sagt er.

Því erum við í minni hlutanum ekki sammála.

Hugmyndin að stofnun fjölmiðlanefndar er ekki síst varhugaverð vegna þess að einstök ákvæði í frumvarpinu eru óljós og opin fyrir túlkun hinnar opinberu eftirlitsnefndar og starfsmanna hennar. Þá eru ráðherra mennta- og menningarmála færð mikil völd yfir fjölmiðlun með heimild til setningar reglugerða. Einnig er ljóst að ákvæði frumvarpsins er varðar eftirlitshlutverk fjölmiðlanefndar skarast á við ákvæði laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Þar er Neytendastofu falið það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd laganna sem m.a. hafa að geyma ákvæði um auglýsingar og aðrar viðskiptaaðferðir. Augljóst er að verksvið hinnar nýju eftirlitsstofnunar og Neytendastofu skarast og tilraunir til að setja óljós ákvæði inn í frumvarpið um samstarfið leysir ekki þann vanda. Óljós valdmörk skapa fleiri vandamál en þau leysa.

Minni hlutinn telur því verulega hættu á að réttaróvissa muni skapast við framkvæmd laga um fjölmiðla nái frumvarp þetta fram að ganga. Þá virðist sem ákvæði um eftirlit fjölmiðlanefndar með auglýsingum og viðskiptaboðum í fjölmiðlum sé byggð á misskilningi, enda er slíkt eftirlit þegar í höndum Neytendastofu eins og áður er vikið að samkvæmt lögum nr. 57/2008 sem aftur byggjast á Evrópurétti.

Minni hluti telur, þrátt fyrir að í frumvarpinu segi að fjölmiðlanefnd skuli gera samstarfssamning við Neytendastofu um mál sem geta varðað starfssvið þessara stofnana, að valdmörk verði óskýr og kunni að skapa fleiri vandamál en ætlunin er að leysa.

Minni hluti varar einnig við þeim valdheimildum sem fjölmiðlanefnd eru veittar samkvæmt frumvarpinu og lúta að afskiptum af skipulagi og vinnubrögðum á fjölmiðlum. Eindregið er varað við því að veita opinberri stjórnsýslunefnd slík völd og sú hætta gæti skapast að gengið yrði á rétt frjálsrar fjölmiðlunar. Slíkt er andstætt öllum hugmyndum um lýðræði og nauðsynlegt aðhald fjölmiðla að stjórnvöldum og gengur þvert á markmið frumvarpsins samkvæmt 1. gr. þess.

Minni hlutinn telur nauðsynlegt að huga að því hvort ekki sé skynsamlegt að binda reglur um hljóð- og myndmiðla, samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins, í lög með breytingum á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti, fremur en með rammalögum um fjölmiðla. Jafnframt telur minni hluti það íhugunarefni og leggur á það ríka áherslu hvort ekki eigi að aðskilja að fullu dreifiveitur annars vegar og efnisveitur hins vegar.

Minni hluti telur að farsælla hefði verið að hefja vinnu við heildstæða rammalöggjöf þar sem m.a. yrði tekið á samkeppnismálum einkarekinna fjölmiðla og Ríkisútvarpsins og að samhliða þeirri vinnu hefði hafist vinna við endurskoðun laga um Ríkisútvarpið frá grunni. Jafnframt hefði löggjafinn í þessu tilviki, samhliða því að setja rammalöggjöf um fjölmiðla, þurft að marka skýra stefnu er varðar eignarhald á fjölmiðlum og tryggja gegnsæi í þeim efnum.

Það tvennt, annars vegar sérlög Ríkisútvarpsins og að ekki er tekið á eignarhaldi fjölmiðla í lögunum, þykir okkur miður og við teljum að nægur tími hefði átt að vinnast frá því frumvarpið var fyrst lagt fram á 138. þingi fram til þess dags sem það var lagt fram á þingi, hefði vilji löggjafans staðið til þess að marka skýra stefnu um eignarhald á fjölmiðlum. Það hefði þurft að vera í frumvarpinu en ekki að koma inn síðar frá sérstakri nefnd sem fjallaði um málið.

Engu að síður er það bragarbót að fjalla á um endurskoðun laga um Ríkisútvarpið og síðan að móta stefnu er varðar eignarhald á fjölmiðlum til að tryggja gagnsæi í þeim efnum. Hins vegar verður fyrst og síðast að huga að því hvers konar fjölmiðla viljum við hafa á Íslandi, hvernig við ætlum að tryggja lýðræðislega og hlutlæga umræðu, óháða eignarhaldi á fjölmiðlinum. Þá skiptir ekki máli í mínum huga hvort um er að ræða Ríkisútvarpið sem er í eigu þjóðarinnar eða einkarekna fjölmiðla. Allir fjölmiðlar eiga að gæta að lýðræðislegri og hlutlausri umræðu um mál líðandi stundar.