139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu og ESB-umsókn.

[15:16]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég las í blöðunum í morgun að hæstv. utanríkisráðherra teldi að Icesave-atkvæðagreiðslan hefði ekki áhrif á ESB-umsóknina. Það kom mér satt að segja aðeins á óvart í ljósi þess að í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar gáfu ummæli hérlendis sem erlendis skýrt til kynna að allir nema hæstv. utanríkisráðherra teldu skýr tengsl þarna á milli. Haft er m.a. eftir sérfræðingi í Evrópufræðum og fyrrverandi varaþingmanni Samfylkingarinnar, Eiríki Bergmann Einarssyni, að allir séu sammála um að Ísland verði ekki aðili að ESB án Icesave.

Ég græt svo sem ekki að niðurstöður atkvæðagreiðslunnar hafi áhrif á ESB-umsóknina en það sem veldur mér áhyggjum er afstaða hæstv. utanríkisráðherra vegna þess að ég tel að hagsmunir okkar í þessum tveimur málum fari ekki saman. ESB segir að aðildin komi ekki til greina án þess að Icesave sé leyst og í máli hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra áðan kom fram, og hann var sammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni, að það væri kannski engin ástæða til að flýta sér vegna þess að málin væru að malla og við þyrftum að sjá hversu mikið kæmi út úr þrotabúinu.

Á meðan, þegar við ættum í ljósi úrslitanna um helgina að þjappa okkur saman sem þjóð, einbeita okkur að því að standa vaktina og verja hagsmuni okkar í Icesave-málinu eins og er skýr vilji þjóðarinnar, er utanríkisþjónustan og stjórnsýslan öll (Forseti hringir.) upptekin af þessari umsókn sem mun hvort sem er ekki fara eitt eða neitt eða klárast vegna þess að hitt málið er óleyst. (Forseti hringir.) Getur hæstv. utanríkisráðherra útskýrt fyrir mér hvernig þessi mál tengjast ekki?