139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins.

445. mál
[16:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er öllum ljóst að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið þurfti að skera niður. Það kemur hins vegar nokkuð á óvart að það skuli hafa verið forgangsröðun hæstv. ráðherra að skera sérstaklega niður þennan eina rannsóknar-, vísinda- og þróunarsjóð sem landbúnaðurinn hefur til að dreifa. Maður hefði haldið að við þær aðstæður sem við búum við núna, þessar háskalegu aðstæður, hefði verið mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa einmitt slíkan sjóð til reiðu fyrir landbúnaðinn til að sækja í til að geta brugðist við ýmsum þeim breytingum sem eru að verða í starfsumhverfi landbúnaðarins.

Ég vek athygli á því að aðrir rannsóknar- og þróunarsjóðir á vegum ríkisins, eins og t.d. AVS og Rannís, hafa ekki fengið neitt nándar nærri slíka meðhöndlun sem Framleiðnisjóður fær hérna.

Ég fagna út af fyrir sig yfirlýsingum hæstv. ráðherra um að hann vilji gjarnan að þessi sjóður starfi í framtíðinni. Hann hefur skipað sérstakan starfshóp í þessu skyni og því spyr ég hæstv. ráðherra: Má vænta þess við fjárlagagerð fyrir næsta ár að hæstv. ráðherra geri tillögu um að auka að nýju fjárveitingar til sjóðsins? Það er ljóst að hann gengur nú þegar á eigið fé. Hann getur ekki starfað svona (Forseti hringir.) öllu lengur. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Mun hann sýna þennan vilja sinn í verki með tillögu um auknar fjárveitingar til sjóðsins á næsta ári?