139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins.

445. mál
[16:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir þá fyrirspurn sem hér er komin af stað. Þetta er mjög mikilvægt málefni og það er gríðarlega mikilvægt að fá staðfest frá hæstv. ráðherra að hann hyggist grípa í taumana áður en langt um líður og auka aftur það fé sem þessi mikilvægi sjóður hefur fengið.

Eins og fram hefur komið hjá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni og hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni er þessi sjóður gríðarlega mikilvægur fyrir alla nýsköpun og þróun og ekki síst fyrir þá bændur sem eru að þróa aðra starfsemi meðfram hefðbundnum búskap. Það hefur vissulega gengið mjög brösuglega að halda rekstri búa, stórra og smárra, í þeim farvegi sem nauðsynlegt er öllum fyrirtækjum. Hæstv. ráðherra lýsti því hér að hann hygðist beita sér fyrir því að auka fé í sjóðinn áður en langt um líður, þ.e. um leið og tækifæri gefst.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort við þurfum að hafa einhverjar áhyggjur af því að aðrir stjórnarflokkar (Forseti hringir.) hér á Alþingi leggist gegn því að aukið fé renni í þennan sjóð í ljósi þess að ákveðnir flokkar hér eru áhugasamir (Forseti hringir.) um að ganga í Evrópusambandið.