139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar og framhald Icesave-málsins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:53]
Horfa

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum niðurstöður úr þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave þar sem kosið var um hvort við sættum okkur við fyrirliggjandi samninga, samninga sem forustumenn allra flokka sameinuðust um að gera lokatilraun til að ná. Þó að ekki styddu allir þingmenn niðurstöðuna að endingu var það mikill meiri hluti Alþingis.

Niðurstaðan úr þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave er skýr. Meiri hluti þjóðarinnar í öllum kjördæmum landsins hafnaði samningunum. Niðurstöðuna er því ekki hægt að túlka á annan veg en þann að ekki sé stuðningur við það að ljúka þessu máli við samningaborðið, a.m.k. ekki fyrr en dómur um þá ábyrgð okkar og skuldbindingu liggur fyrir. Vilji þjóðarinnar liggur því fyrir eftir lýðræðislegar kosningar og því ber að fagna.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson fór mikinn í umræðu áðan við að túlka niðurstöðu kosninganna og vilja kjósendanna, m.a. afstöðu til ríkisstjórnarinnar, út frá þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Sem einlæg stuðningskona þjóðaratkvæðagreiðslna hugnast mér ekki sá málflutningur. Það var ekki kosið um ríkisstjórnina.

Í dag er afar mikilvægt að eyða eins og kostur er þeirri óvissu sem niðurstaðan óhjákvæmilega skapar. Mikilvægt er að skýra stöðuna sem upp er komin fyrir alþjóðasamfélaginu, halda uppi vönduðum vörnum fyrir Ísland sem og að tryggja gott og rétt upplýsingaflæði. Við þurfum til að mynda að halda því til haga að niðurstaðan hefur ekki áhrif á skipti bús Landsbanka Íslands hf. en væntingar standa til þess að eignir búsins muni að langmestu eða öllu leyti duga fyrir forgangskröfum vegna Icesave. Það er afar mikilvægt að við vöndum til verka við þetta verkefni fram undan því að gríðarlegir hagsmunir eru í húfi. Við þurfum að tryggja stöðugleika og að samningar á vinnumarkaði gangi eftir. Einna mikilvægast er að tryggja að vaxtabyrði af erlendum lánum verði ekki of íþyngjandi því að peningar sem fara í vaxtagreiðslur fara hvorki í velferðarkerfið né menntakerfið. Fyrir okkur á Alþingi liggur því fyrir að framfylgja vilja þjóðarinnar og halda áfram efnahagslegri uppbyggingu landsins eftir afar erfiða tíma. Deilurnar um Icesave hafa verið þjóðinni erfiðar. Því er mikilvægast á þessum tímapunkti að við horfum fram á við, reynum að ná sáttum á þingi sem og meðal þjóðarinnar og stilla saman strengi.

Virðulegi forseti. Það jákvæða við stöðuna í dag er hins vegar að fyrir liggur umboð heillar þjóðar eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, umboð til að fara þessa leið, dómstólaleiðina, og við hvikum þar af leiðandi ekki frá því. Að mínu mati standa íslensk stjórnvöld því styrkari fótum í verkefninu fram undan.