139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:19]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessa tillögu sem hann, eins og fram kom í máli hans, boðaði fyrr á þessu þingi og er í sjálfu sér ágæt. Við lestur tillögunnar hins vegar og við að hlusta á hæstv. ráðherra verð ég að viðurkenna að ég varð svolítið áttavillt í þessu öllu saman.

Hæstv. ráðherra vísaði í stofnun innanríkisráðuneytisins og hann vísaði í mikilvægi þess að þar væri verið að koma þessum málum öllum á þennan hátt til frambúðar fyrir í stjórnkerfinu. Spurning mín, ef hæstv. ráðherra má vera að, er tiltölulega einföld: Miðað við forsendur tillögunnar fellur hugtakið þjóðaröryggi og verkaskiptingin sem ráðherrann lýsti milli utanríkis- og innanríkisráðuneytis. Þessi tillaga fellur að frekar litlu leyti undir verkefni utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðherra, eftir því sem mér skildist í umræðunni sem við áttum um breytingar á Stjórnarráðinu, hefur ekkert með glæpi, hryðjuverk eða mengun að gera. Þessi tillaga fjallar um Ísland og herleysið, réttilega, og allar ógnanir sem geta stafað af öðrum völdum en hernaðarlegum. Ef mig misminnir ekki var verkaskiptingin milli innanríkis- og utanríkisráðuneytis sú að utanríkisráðuneytið átti að sjá um samskipti við alþjóðasamtök, Atlantshafsbandalagið, Sameinuðu þjóðirnar og annað en innanríkisráðuneytið átti að fara með framkvæmdina. Af hverju leggur ekki hæstv. innanríkisráðherra tillöguna fram?