139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[21:34]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um tillögu Sjálfstæðisflokksins, sem bar allra flokka mesta ábyrgð á hruni fjármálakerfisins, um vantraust á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur varið síðustu tveimur árum í að taka til eftir þetta sama hrun. Erlendir matsaðilar gefa ríkisstjórninni þá einkunn að efnahagur landsins sé að hjarna við. Tekist hefur að ná vöxtum og verðbólgu niður, kaupmáttur er að aukast, atvinnuleysi að minnka og fjárlagahallinn hefur minnkað um ríflega 80% frá hruni.

Sú tillaga sem hér er til afgreiðslu er því óskiljanleg ef hún er tekin bókstaflega því að tímasetningin er svo fráleit. Hún er aðeins skiljanleg í því ljósi að hún er eina leið Sjálfstæðisflokksins til að draga athyglina frá því ógeðfellda heimilisofbeldi sem þar stendur yfir á vegum fyrrverandi formanns flokksins.

Tillagan endurspeglar vaxandi vantraust Sjálfstæðisflokksins á eigin forustu. Nú þurfum við hins vegar á samstöðu allrar þjóðarinnar að halda til að tryggja að haldið verði kröftuglega á hagsmunum Íslands á alþjóðavettvangi í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardaginn.

Ég styð þessa ríkisstjórn að sjálfsögðu áfram til góðra verka (Forseti hringir.) og segi því nei.