139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

Byggðastofnun.

721. mál
[16:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar. Það er svolítið sérstakt að koma fram með þetta mál úr því að nefnd var skipuð 16. febrúar sl. til að gera tillögu um framtíðarfyrirkomulag á lánastarfsemi Byggðastofnunar sem er að sjálfsögðu gríðarlega stór þáttur af starfsemi hennar. Við höfum svo önnur svið þarna, svo sem þróunarsvið, þar sem unnið er að rannsóknum og ýmsu þess háttar. Þessi nefnd er enn þá að störfum og því er með öllu óeðlilegt að hér sé komið fram með frumvarp sem kemur beint að máli sem hlýtur að vera eitt af því sem er tekið til skoðunar þegar fjallað er um þennan stóra þátt stofnunarinnar, lánastarfsemina, þ.e. hvernig haldið er á stjórninni og hvernig valið er í hana. Ef ég man rétt er í athugasemdum með frumvarpinu fjallað um hvernig það skuli gert.

Það er líka nauðsynlegt að minnast á að það er mjög óraunhæft að gera sömu kröfu til lánastarfsemi Byggðastofnunar og lánastarfsemi venjulegs banka, þar sem lánað er á allt öðrum forsendum ef sú starfsemi er stunduð á öðrum forsendum en venjulegs fjárfestingar- eða viðskiptabanka.

Við sáum t.d. í vandræðunum eftir hrunið að þegar bankar voru búnir að gefa jafnvel heimild fyrir lagfæringum á lánum fyrirtækja stóð upp á Byggðastofnun að koma þar inn í vegna þess að stofnunin hafði ekki fengið þau lagaúrræði sem þurfti til þess og þá um leið þá fjármuni sem hefði þurft til að mæta frekari skakkaföllum. Þarna brást ríkisvaldið algjörlega þeim fyrirtækjum úti á landi sem hefðu hugsanlega getað lifað ef Byggðastofnun hefði haft þau tæki og tól sem þurfti til.

Við þurfum einfaldlega, frú forseti, að horfa til framtíðar og marka þessari starfsemi skýra stefnu. (Forseti hringir.) Ég tek undir með þingmanninum.