139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[17:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil aðallega ræða breytingartillögu hv. þm. Helga Hjörvars við þetta mál. Nú er það svo að þegar allir íbúar húsnæðis skulu samþykkja eitthvað er alltaf til slíkt fólk sem langar til að vera mikilvægt og segir nei. Í fjölbýlishúsum og víðast hvar eru nágrannarnir yfirleitt indælasta fólk og besta fólk en þó bregður stundum við að svo er ekki. Það getur komið upp sú staða að menn finni einhverja ánægju í því að hafna slíkri beiðni jafnvel þegar um blindrahund er að ræða, sem mér finnst virkilega dapurlegt. Það er mjög dapurt að hv. Alþingi þurfi að ræða svona mál.

Tillagan, sem gengur út á það að 2/3 eigenda — væntanlega eftir fjölda, ekki eftir eignarhlut — eigi að samþykkja, er ágæt nema að því leyti að þetta tíðkast þannig að menn ganga mann af manni og ræða við hvern fyrir sig, það er sem sagt ekki fundur sem tekur ákvörðun um þetta, og þegar búið er að safna 2/3 af eigendum með þessum hætti telja þeir sér borgið að flytja inn hund. Þetta gæti farið öðruvísi ef húsfundur tæki ákvörðun um það, en ég ætla ekki að leggja til að verði gert því að það er allt of viðamikið. Hins vegar gæti húsfundur væntanlega afturkallað slíkt leyfi ef til kæmi.

Ég hygg að ég muni styðja tillögu hv. þm. Helga Hjörvars vegna þess að hún kemur í veg fyrir þetta vald sem einum íbúa er falið, að standa á móti bara út af leiðindum sínum, og kallar fram meiri samstöðu í húsfélaginu. Ég hugsa því að ég styðji þessa tillögu en ég á dálítið eftir að melta það með mér hvort svo verði.