139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

Vaðlaheiðargöng.

655. mál
[15:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Vaðlaheiðargöng sem opinberir aðilar standa að að meiri parti verða grafin eða boruð á þeim forsendum að um einkaframkvæmd sé að ræða, á viðskiptaforsendum. Þetta verður ekki einokun af því að fólk getur alltaf farið hina leiðina, þ.e. um Víkurskarð, eins og er í Hvalfirðinum. Ef menn vilja losna við að borga gjaldið í Hvalfjarðargöngin geta menn farið Hvalfjörðinn og sumir gera það á sumardögum þó að flestir noti sér það mikla hagræði sem af Hvalfjarðargöngunum er og borgi fyrir það í staðinn.

Viðskiptavinir Vaðlaheiðargangafyrirtækisins eiga að sjá til þess að göngin standi undir sér. Og svarið við þeim efasemdum sem fram hafa komið um útreikninga, eins og oft er um þessa hluti, er á þá leið að ef umferðin dugar ekki þá sé bara að rukka meira því þetta sé svo heilbrigð og góð hugmynd að þetta fari allt vel, ekki verði nokkurn tíma tekið af almannafé til að borga þetta. Þetta er sem sé raunverulegt einkamál og ökumenn hafa sífellt val um að borga göngin eða fara Víkurskarðið ókeypis nema þá þennan hálfa annan dag á vetri sem Víkurskarð er að jafnaði ófært og má bæta við nokkrum dægrum í viðbót ef menn hafa dagspartana með.

Þá kemur að spurningunni: Er það þannig að þegar Víkurskarð er ófært, samkvæmt þessu, verði mönnum fyrir venjulegt skattfé gefinn kostur á að fara hina leiðina, hina nýju leið um Vaðlaheiðargöngin? Ef svarið er já þarf ekki meira um það að fást, þá stenst þessi hugmyndafræði, forsendurnar eru réttar, þær eru sem sagt þannig að um einkaframkvæmd er að ræða og enga einokun. Ég vænti þess að svarið sé það og geri ráð fyrir að hæstv. innanríkisráðherra geti átt mjög stutta innkomu í stólinn og svarað með einu orði, nefnilega já. Það kæmi ekki á óvart af hans hálfu því að ráðherra hefur frá fyrri tíð á sínum stjórnmálaferli mjög gagnrýnt sambland einkaframkvæmda og opinberra framkvæmda og verið talsmaður þess, og ég hef verið honum sammála um það að mjög skýrt sé skilið á milli annars vegar þeirra verkefna sem ráðist er í fyrir almannafé á opinberum forsendum og hins vegar þess sem einkaaðilar með ýmsum hætti taka að sér jafnvel þó að um opinbera innblöndun í eignarhald slíkra fyrirtækja sé að ræða.