139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Írisi Róbertsdóttur fyrir andsvarið og þær spurningar sem hún varpaði fram. Hvað lá á? Það er auðvitað góð spurning af því að hér var m.a. fjallað um, það kom fram aðeins fyrr í umræðunni í dag að aðstoðarmaður hæstv. forsætisráðherra hefði skrifað grein í Fréttablaðið, sem ég hef einmitt gluggað aðeins í líka, og þar væri verið að fjalla um ákveðna hluti sem tengjast stjórnarskránni. Það er með nokkuð óeðlilegum hætti hvernig framkvæmdarvaldið er að blanda sér í það, af hverju menn gátu ekki alla vega beðið eftir því að stjórnlagaráðið skilaði tillögum sínum en væru ekki að vasast í því hvernig túlka beri núverandi stjórnarskrá eða hvernig hún yrði. Ég held að það sé varhugavert.

Hér er auðvitað verið að færa, eins og við höfum rætt áður, vald frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins jafnvel enn frekar. Ástæðan fyrir því er kannski sú hefð sem hefur skapast í því að framkvæmdarvaldið hefur gengið yfir þingið um langan tíma. Það hefur ekkert lagast, það kemur auðvitað fram í orðum fyrrverandi þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem gengu úr skaftinu þegar þeir sögðust ekki sætta sig lengur við að vera lögafgreiðslumenn núverandi ríkisstjórnar. Ég held það sé kannski hluti af skýringunni að enn er haldið áfram á sömu braut.

Kannski hefur þetta eitthvað með það að gera að þeir sem stýra núverandi ríkisstjórn hafa setið á þingi í kringum 30 ár og það er bara staðreynd að erfitt er að kenna gömlum hundi að sitja. (Gripið fram í.) 30 ár hvort um sig, 60 ár samtals. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að ætlast til að neinn hafi setið í 60 ár. Ég held að þetta geti verið hluti af skýringunni að það sé erfitt að tileinka sér ný vinnubrögð þegar menn hafa setið hér allt of lengi.