139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands sem hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir í dag. Umræðan hefur svo sem farið um víðan völl, menn hafa mikið rætt hvaða forsendur séu fyrir frumvarpinu og hvaða markmið hæstv. forsætisráðherra hafi með því að leggja það fram.

Ég staldra dálítið við pólitíska stöðu málsins. Í umræðunni hefur skýrt komið fram að einn hæstv. ráðherra gerði athugasemdir við frumvarpið og bókaði andstöðu við það og eins hefur annar hæstv. ráðherra gert athugasemdir við það eða sett fyrirvara við frumvarpið þó hann hafi ekki lagst gegn því að það væri lagt fram. Því er eðlilegt að menn staldri við pólitíska stöðu málsins. Eftir því sem komið hefur fram og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir upplýsti í dag setti þingflokkur Vinstri grænna fyrirvara við frumvarpið. Maður er mjög hugsi yfir því hvort frumvarpið eins og það blasir við hafi ekki meirihlutastuðning á þinginu.

Síðan hafa menn rætt hvort frumvarpið sé lagt fram til að auðvelda inngöngu í Evrópusambandið. Ég ætla svo sem ekki að leggja neitt til í það púkk nema það að ef markmiðið er í raun og veru, eins og margir hafa haft áhyggjur af, að losna við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem ekki hefur verið ötulasti talsmaður inngöngu í Evrópusambandið í hæstv. ríkisstjórn, þá mun það einfalda starf hæstv. utanríkisráðherra. Eins og staðan er í dag þarf hæstv. utanríkisráðherra að lesa yfir og leiðrétta svör sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins varðandi aðildarumsóknina og það mundi að sjálfsögðu einfalda starf hæstv. utanríkisráðherra ef hann gæti bara skrifað svörin sjálfur í staðinn fyrir að fara yfir þau og túlka í samræmi við það sem hann vill að komi fram og passa að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sendi ekki neitt annað skriflegt frá sér.

Það er dálítið merkilegt að sjá hvernig staðan innan hæstv. ríkisstjórnar er gagnvart þessum breytingum á Stjórnarráðinu. Það er reyndar skrifað inn í stjórnarsáttmálann að búa eigi til nýtt atvinnuvegaráðuneyti og við munum að hæstv. forsætisráðherra sagði í andsvari í lok nóvember á síðasta ári að frumvarp um það yrði lagt fram eigi síðar en í marsmánuði. Nú er kominn maí. Við sjáum því að þetta er pattstaða, þetta mun ekki verða gert vegna andstöðu innan Vinstri grænna. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði í þessum ræðustóli að sú sameining væri algert rugl og vitleysa þótt hún stæði í stjórnarsáttmálanum. Þetta er í raun og veru það sem einkennir verk ríkisstjórnarinnar, það er hver höndin upp á móti annarri en valdafíknin og valdagræðgin er svo mikil að á völdunum skal hangið eins og hundur á roði. Það er bara staðreynd.

Mig langar að koma aðeins inn á nokkrar greinar í þessu frumvarpi sem kannski hefur ekki verið fjallað mjög mikið um. Mig langar að ræða 6. gr. um ríkisstjórn og samhæfingu starfa á milli ráðherra. Þar er rætt um ákvarðanir einstakra hæstv. ráðherra sem hafa með mikilvæg stjórnarmálefni að ræða en það eru t.d. reglugerðir og yfirlýsingar sem taldar eru fela í sér mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingar eða ef sýnt þykir að reglugerð eða yfirlýsing geti haft á áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Ég verð að segja að mín skoðun á þessu er alveg skýr. Mér finnst að hér ætti að standa að þegar svona hlutir eiga sér stað eigi hæstv. ráðherrar að kynna það fyrir Alþingi. Stundum eru teknar ákvarðanir í hæstv. ríkisstjórn um að fara í ákveðnar aðgerðir sem þýða útgjaldaauka fyrir ríkissjóð sem ekki er inni í fjárlögum. Oft og tíðum er kannski meiri hluti fyrir slíkum aðgerðum á Alþingi og jafnvel enginn pólitískur ágreiningur. Þá er mjög sérkennilegt, og mér finnst það ekki mönnum bjóðandi af því að ég á sæti í hv. fjárlaganefnd, að heyra það í fjölmiðlum að til standi að ríkisstjórnin ætli að auka útgjöld til einhvers ákveðins málaflokks. Þó að ég sé hugsanlega sammála þeim gjörningi fyndist mér að hæstv. ráðherra ætti að kynna hann fyrir hv. fjárlaganefnd og fyrir þinginu. Væri samstaða um málið væri hægt að afgreiða það með stuttum fyrirvara. Það er sérkennilegt að gera þetta svona, hrúga þessu upp og koma með fjáraukalög í staðinn. Það er ekki boðlegt.

Ég vil líka koma inn á það sem sagt er í greininni um mikilvæg stjórnarmálefni. Það er huglægt mat hvað er mikilvægt stjórnarmálefni en samt er verið að reyna að nálgast það og afmarka í þessari stefnu. Til að mynda er óþolandi hvernig hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur gengið fram, hann hefur í raun og veru gert aðför að ákveðnum útgerðarflokki sem eru dragnótaveiðar. Um er að ræða algera aðför að þeim útgerðarmönnum sem þær stunda og ekki bara þeim heldur líka áhöfnunum og eigendunum. Búið er að setja í uppnám afkomu tuga fjölskyldna og útgerða í landinu. Enn og aftur boðar hæstv. ráðherra að hann ætli að fara fram með enn frekari lokanir og þar er ekkert annað verið að gera en níðast á lítilmagnanum. Það stunda ekki mjög margar útgerðir þessar veiðar og þær hafa ekkert bolmagn til að berjast við framkvæmdarvaldið. Það dapurlegasta við þetta er þó að hæstv. ráðherra hefur ekki sýnt fram á nein efnisleg rök fyrir þessum aðgerðum, ekki nein. Aðrir hæstv. ráðherrar hafa upplýst að þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tekur svona ákvarðanir kynnir hann þær ekki í ríkisstjórn, sem mér fyndist eðlilegra.

Þess vegna spyr ég: Hver er í raun og veru tilgangur hv. Alþingis ef einstaka ráðherrar geta tekið svona geðþóttaákvarðanir sem hafa svona stórar og miklar afleiðingar? Það þarf að skoða hvort ekki eigi að breyta heimildum til reglugerðarsetningar. Mér fyndist eðlilegra að hæstv. ráðherra þyrfti, þegar hann fer í svona miklar aðgerðir, að kynna það fyrir þinginu og færa rök fyrir máli sínu. Það er fyrir neðan allar hellur hvernig hæstv. ráðherra hefur unnið gegn útgerðum og sjómönnum sem stunda veiðarnar og fjölskyldunum sem byggja afkomu sína á þeim. Það er ekki boðlegt árið 2011 að það sé háð duttlungum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða hvernig hann fer fram úr á morgnana hvort hann taki einhverjar svona ákvarðanir. Þetta er hugsanlega bara notað til pólitísks heimabrúks á heimaslóðum hans. Er það það sem við viljum? Ekki ég, alls ekki.

Við höfum skiptar skoðanir á því hvað megi t.d. veiða í aflamarki viðkomandi tegunda á fiskveiðiárunum og það er sérkennilegt að kerfið skuli vera þannig uppbyggt að það sé í raun og veru einn hæstv. ráðherra sem tilkynni hvað verði veitt. Allt þingið bíður í ofvæni eftir ákvörðuninni, meira að segja hv. stjórnarþingmenn. Ég hef orðið vitni að því að hv. stjórnarþingmenn vita ekki hvað hæstv. ráðherra mun leggja til. Væri ekki eðlilegra að breyta vinnubrögðunum og hæstv. ráðherra þyrfti að leggja fram tillögur í þinginu, færa fyrir þeim rök og afla þeim fylgis innan þingsins? Til hvers er þingið eiginlega? Nú hafa margir tekið til máls í dag og vitnað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannaskýrsluna sem var afgreidd þannig að allir hv. þingmenn greiddu því atkvæði að styrkja þingið. Það er það sem þarf að gera.

Síðan vil ég koma inn á eitt sem ég tel reyndar mjög jákvætt í frumvarpinu, ég ætla að reyna að vera sanngjarn, það er 21. gr. Mér finnst hins vegar að hún þurfi að ganga lengra. Að mínu mati er ekkert vit í að ráða inn í hvert ráðuneyti fyrir sig. Það væri mikið eðlilegra að ráða inn í Stjórnarráðið sem slíkt. Þá væri hægt að færa fólk til á milli ráðuneyta án þess að menn væru bundnir af starfsmannalögum eins og þau eru núna. Nú eru starfsmenn ráðnir í viðkomandi ráðuneyti og ekki er hægt að færa þá til nema með samþykki þeirra. Mér fyndist að breyta ætti þessu í átt að fjölskipuðu stjórnvaldi, sem reyndar er ekki hægt að klára alveg nema með því að breyta stjórnarskránni, þetta væri skref í þá átt. Þó að í þessari grein sé gert ráð fyrir því að færa megi til fólk sem er ráðið tímabundið, á milli ráðuneyta með samþykki ráðherra og starfsmannsins, væri miklu skynsamlegra héðan í frá að ráða bara starfsfólk inn í Stjórnarráðið og þá væri hægt að færa það til á milli ráðuneyta. Ef mikið álag væri í einu ráðuneyti á einum tíma en rólegt í öðru eins og við upplifum oft er mjög óeðlilegt að fullt af fólki sem vinnur í stjórnsýslunni sitji kannski með lítil eða engin verkefni meðan aðrir eru að drukkna í verkefnum. Þetta væri því mjög skynsamlegt.

Ég vona að þetta verði útfært nánar í meðförum hv. allsherjarnefndar því mér þætti mjög jákvætt að hægt væri að stýra þessu, það segir sig alveg sjálft. Maður hefur orðið vitni að því að álag á ráðuneyti er mjög misjafnt. Ég nefni t.d. lokafjárlög 2009 sem við kláruðum að afgreiða í dag. Ástæðan fyrir því að ekki er hægt að afgreiða lokafjárlög fyrr en einu og hálfu ári eftir að árinu lýkur er meðal annars sú að mikið álag hefur verið á starfsfólki í fjármálaráðuneytinu. Þegar vinna á lokafjárlög er byrjað að leggja grunninn að fjárlögum næsta árs og menn ýta þessu til hliðar. Þessu verðum við að breyta ef við ætlum að ná tökum á ríkisfjármálum. Á ákveðnum álagstímum væri hægt að fá starfsfólk úr öðrum ráðuneytum. Það blasti við okkur þegar hrunið varð að þá var kannski fullt af hæfu starfsfólki í Stjórnarráðinu sem hægt hefði verið að nýta til að gera ákveðna hluti og bregðast við aðstæðum í stað þess að leggja það á fáa aðila.

Mjög mikið álag hefur verið á starfsfólki fjármálaráðuneytisins, ég þekki dálítið vel til þar vegna þess að ég sit í hv. fjárlaganefnd, í gegnum alla þessa Icesave-samninga og það allt saman. Það væri auðvitað eðlilegt að geta fært til starfsfólk og skynsamlegra að búa bara til eina mannauðsskrifstofu sem réði inn í allt Stjórnarráðið í staðinn fyrir að hver og einn ráðherra réði þar inn. Ég teldi það mjög skynsamlegt og það gæti líka verið hollt fyrir okkur og alla því þá mundi pólitíkin fjarlægjast dálítið frá ráðningum. Mér er mjög minnisstætt um daginn þegar hæstv. forsætisráðherra fékk á sig dóm út af jafnréttislögum að hæstv. forsætisráðherra var mjög brugðið yfir því. Það hefði verið betra ef ráðningarnar hefðu verið fjær ráðherra, þótt ég sé ekki að segja að hæstv. ráðherra hafi verið að skipta sér eitthvað af þeim, og það væri ein mannauðsskrifstofa sem réði inn í Stjórnarráðið og þar af leiðandi í öll ráðuneyti.

Svo vil ég nota síðustu mínúturnar til að taka undir það sem kom fram í dag í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur. Þó að lagt sé til í frumvarpinu að ráðherrar megi taka með sér tvo starfsmenn í ráðuneyti, aðstoðarmann og ráðgjafa, þá held ég að við þurfum að ræða hvort við viljum að þeir geti hugsanlega orðið fleiri. Þá verður að vera alveg skýrt að þeir kæmu með ráðherrum og færu með ráðherrum. Við höfum nefnilega séð það gerast, og það hefur oft gerst í gegnum tíðina þótt það eigi ekki við um alla hæstv. ráðherra, að búið er að ráða inn fólk sem stendur kannski oft og tíðum nærri hæstv. viðkomandi ráðherra en hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom inn á það í ræðu sinni að stjórnsýslan væri hápólitísk — ég þekki það ekki, hef ekki unnið í stjórnsýslunni — og síðan þegar annar ráðherra kemur inn eru þessir starfsmenn ráðuneytisins bundnir af starfsmannalögum og ekki er hægt að láta þá hætta. Þá eru þeir kannski settir á eins konar göngudeild í ráðuneytinu vegna þess að viðkomandi ráðherra þóknast þeir hugsanlega ekki og þeir standa oft og tíðum uppi verkefnalausir.

Ég tel, virðulegi forseti, að í raun og veru þyrfti að gera þetta með meira afgerandi hætti, sérstaklega það sem kemur fram í 21. gr. og væri mjög skynsamlegt að hér eftir yrði ráðið inn í Stjórnarráðið en ekki viðkomandi ráðuneyti. Við sjáum þetta mjög vel þegar ráðuneyti eru lögð niður, þá þarf að tryggja öllu starfsfólkinu vinnu áfram í viðkomandi ráðuneytum. Þess vegna væri mikið skynsamlegra að ráða inn í Stjórnarráðið. Það mundi skila okkur, að mínu mati, miklu betri árangri og faglegri stjórnsýslu.