139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka eitt fram, ég er í sjálfu sér ekkert á móti því að menn skoði einhvers konar uppstokkun á Stjórnarráðinu. Það er auðvitað ýmislegt sem mætti skoða í því sambandi. Ég hef sjálfur staðið að því, bæði sem ráðherra og þingmaður, að gera ýmsar breytingar á skipan ráðuneyta. Ég tel að það sé nokkuð sem við hljótum stöðugt að hafa undir.

Þegar vald er tekið frá Alþingi og fært til framkvæmdarvaldsins er það ekki til þess fallið að styrkja þingræðið. Það sjáum við í hendi okkar. Það kunna að vera einhver rök fyrir því að hafa það fyrirkomulag sem lagt er hér til.

Nú er ég búinn að rekja það að hæstv. fjármálaráðherra hefur talað mjög harkalega gegn slíkum hugmyndum, jafnvel hugmyndum sem gengu miklu skemmra, hugmyndum sem gengu bara út á það að sameina tiltekin ráðuneyti eins og þau voru. Í því tilviki var síðar meir, haustið 2007, lagt fram frumvarp sem fól í sér breytingar á verkefnaskipan þeirra ráðuneyta og ýmissa annarra eins og við vitum. Þá var komið fram með frumvarp í þessu sambandi en í frumvarpinu sem hér liggur fyrir er greinilega ekki ætlunin að gera það, heldur verði opnaður sá möguleiki að skáka þessu öllu til. Hér hef ég líka hlustað með athygli á þá sem hafa kynnt sér sem best skýrslu hinnar svokölluðu þingmannanefndar og hafa fullyrt að þetta sé þvert á stefnu hennar.

Síðan vil ég segja eitt, auðvitað getur vel átt rétt á sér að stækka einstök ráðuneyti en það þarf að vera hóf á því. Ég ætla að fullyrða eitt, stofnun velferðarráðuneytisins á sínum tíma, þetta gríðarlega umfangsmikla ráðuneyti, hefur veikt lýðræðið í landinu og styrkt embættismannavaldið á kostnað hinna löglega og lýðræðislega kjörnu fulltrúa sem eru ráðherrarnir sem sitja í umboði Alþingis.