139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

rekstrargrundvöllur gagnavera á Íslandi.

[16:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég vil áfram tala fyrir því að það er alveg sama hversu mikið landsvæði við höfum, hversu ódýr orkan er, hversu mikill kuldi er hérna og hversu samkeppnishæf við erum, hér gerist ekkert í gagnaversmálunum fyrr en verðlagið verður lagað varðandi sæstrengina. Það er alveg klárt því að eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni er bandvíddarkostnaðurinn um 80% af heildarkostnaði við rekstur gagnavera en orkan er t.d. aðeins um 1,5–2%. Þessar staðreyndir verðum við að hafa á hreinu þegar við ræðum hér gagnaver og nýjan iðnað, hvaða tappi stendur raunverulega í vegi fyrir því að hér geti farið af stað nýr iðnaður.

Hæstv. fjármálaráðherra ræddi um að Farice væri rekinn á viðskiptalegum forsendum. Svo er því miður ekki því að gjaldskrá Farice er svo há að stórnotendur og þeir sem huga að því að reka hér gagnaver treysta sér ekki í það verð sem í boði er, sérstaklega í ljósi þess að Greenland Connect selur 1 megabæt á 1 evru.

Það getur varla verið að Farice sé rekinn á viðskiptalegum forsendum þar sem einungis 3% af strengnum eru í notkun. 97% af strengnum eru hrein sóun. Þetta verður að skoða og hvers vegna þetta er svona. Því langar mig til að beina spurningu til hæstv. fjármálaráðherra um eigandastefnu ríkisins þar sem hann er fjármálaráðherra: Hver er hún varðandi Farice-strenginn? Eftir niðurfellingu skulda og hreinsun og endurskipulagningu á Farice síðasta haust á ríkið í gegnum sjálft sig og Landsvirkjun 80% af Farice. Því kalla ég eftir upplýsingum um (Forseti hringir.) stefnuna og hvort hæstv. fjármálaráðherra óttist það ekki mjög að hér verði allra tap, Landsvirkjunar, íslenska ríkisins og svo (Forseti hringir.) banka sem á þarna yfir 10% í fyrirtækinu, þegar og (Forseti hringir.) ef Emerald Networks leggur hér sæstreng á næsta ári eins og boðað er.