139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:43]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Forsætisráðherra ber hér fram frumvarp þar sem fyrst og fremst er verið að taka á ábendingum sem hafa komið á verklag Stjórnarráðsins. Hún ber það inn í þingið til 1. umr. og það mun svo fara til þingnefndar þar sem þingmenn munu skiptast á skoðunum og væntanlega gera einhverjar breytingar á því hvernig frumvarpið muni líta út. Ég tel mjög mikilvægt að þar reyni menn að komast að samkomulagi og tekin verði efnisleg djúp umræða um það hvernig frumvarpið eigi að líta út og menn skiptist þar á skoðunum efnislega. Mér finnst hafa skort á það hér við 1. umr. að menn takist efnislega á um innihald frumvarpsins. Ég vænti þess að í nefndinni muni menn, eins og þeir gera jafnan í þingnefndum, fara úr hinum pólitísku skotgröfum stjórnar og stjórnarandstöðu og takast á um frumvarpið efnislega. Það er hinn rétti vettvangur samráðs alþingismanna.