139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Um eina af þeim skýrslum sem voru þær samráðsskýrslur sem vitnað er til í frumvarpinu ritaði hæstv. innanríkisráðherra grein í DV þar sem sagði, með leyfi frú forseta:

„En ekki er mikið að finna um leiðir til að komast hjá hjarðhegðun og forræðishyggju eða hvernig megi auka gagnsæi og lýðræði hjá hinu opinbera. Þvert á móti er talað um að þörf sé á að „skerpa á forystuhlutverki forsætisráðherra í ríkisstjórn“; aðrir ráðherrar eigi að sitja „í skjóli“ hans og megi ekki orka tvímælis hverjum beri „að knýja á um ábyrgð þeirra eða afsögn þegar ástæða þykir til“. Nefndin virðist ekki vera í vafa um að allt hnígi þarna í sömu átt, yfirvald beri að styrkja.“

Er ekki trúlegt að ef haft hefði verið meira samráð út fyrir veggi Stjórnarráðsins hefðu menn hugsanlega komið með frumvarp sem hefði falið í sér meiri valddreifingu, falið það í sér að ekki sé verið að færa þessi auknu völd til forsætisráðherra og í rauninni allt, allt aðra hugsun í stjórnarráðsmálum en lagt er til í þessu frumvarpi?