139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:46]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar og svörin og sýn hennar á málin.

Ég held að við séum ekkert rosalega ósammála. Það var haft ákveðið samráð en mér finnst að samráðið hefði átt að vera annað í ljósi þess hvaða lagafrumvarp við erum með í höndunum. Ég held að það sé ekki ósanngjarnt. Þetta varðar Stjórnarráð Íslands. Við verðum að vera svolítið sammála, vinnan í nefndunum, umræðan í þinginu er að sjálfsögðu málefnalegri og betri og vinnulagið og skipulagið getur orðið betra ef við erum einhvers staðar nálægt þegar við byrjum. Ég held að það sé mjög erfitt að segja að svo sé ekki.

Auðvitað er það hæstv. ríkisstjórn sem stjórnar ferðinni og þarf að sjálfsögðu ekki að vera í bullandi samráði í öllum frumvörpum.