139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

almannatryggingar o.fl.

763. mál
[21:09]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, og lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta sem samið hefur verið í samvinnu við fjármálaráðuneytið og Landssamtök lífeyrissjóða er lagt fram í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands og Landssamtaka lífeyrissjóða frá 3. desember sl. um víxlverkun örorkulífeyris almannatrygginga og lífeyris úr lífeyrissjóðum og hækkun frítekjumarks ellilífeyrisþega í áföngum. Þá er vísað til samkomulags félags- og tryggingamálaráðherra og Landssamtaka lífeyrissjóða frá 30. desember sl. sem gert var á grundvelli þeirrar yfirlýsingar en bæði þessi plögg eru lögð fram sem fylgiskjöl með frumvarpinu.

Frumvarpið lýtur að samspili örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða en markmiðið er að koma í veg fyrir þá víxlverkun sem verið hefur um árabil í samspili örorkubóta frá almannatryggingum og örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum og hefur vægast sagt mælst illa fyrir og meðal annars orðið tilefni til dómsmála. Það má í raun segja að þessi víxlverkun sé lögbundin í dag því að samkvæmt lögum um almannatryggingar lækka greiðslur til lífeyrisþega frá Tryggingastofnun ríkisins í mörgum tilfellum vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Þetta gerist þegar greiðslur úr lífeyrissjóði eru komnar yfir ákveðið frítekjumark sem er misjafnlega hátt eftir því um hvaða bótaflokka almannatrygginga er að ræða.

Að sama skapi er mælt fyrir um það í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að sjóðfélagi í lífeyrissjóði eigi rétt á örorkulífeyri úr viðkomandi sjóði hafi hann orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Ákvæðið hefur verið útfært nánar í samþykktum lífeyrissjóða þar sem fram kemur að heildartekjur örorkulífeyrisþega eftir orkutap megi ekki verða hærri en þær tekjur sem hann hafði fyrir orkutap. Við þennan samanburð á tekjum lífeyrisþega fyrir og eftir orkutap líta sjóðirnir meðal annars til greiðslna almannatrygginga sem oft hefur leitt til þess að greiðslur til lífeyrisþega úr lífeyrissjóðum hafi lækkað eða jafnvel fallið niður. Við þessa tekjulækkun öðlast síðan þessir sömu einstaklingar aukin réttindi innan almannatryggingakerfisins sem aftur leiðir til enn frekari lækkunar á greiðslum frá lífeyrissjóðunum og síðan koll af kolli. Það er þessi gagnkvæma tekjutenging almannatrygginga og greiðslna úr lífeyrissjóðum sem hér er lagt til að verði komið í veg fyrir enda hefur þetta fyrirkomulag fyrst og fremst komið þeim illa sem síst skyldi, þ.e. örorkulífeyrisþegunum sjálfum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að á tímabilinu 1. janúar 2011 til og með 31. desember 2013 muni greiðslur örorkulífeyris, örorkustyrks, aldurstengdrar örorkuuppbótar og tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og greiðslu heimilisuppbótar, uppbótar á lífeyri vegna kostnaðar og uppbótar vegna reksturs bifreiðar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð ekki lækka vegna almennra hækkana lífeyrisgreiðslna úr lífeyrissjóðum.

Hér er með öðrum orðum lagt til að breytingar sem verða á greiðslum lífeyrissjóða vegna vísitöluhækkunar eða hækkunar á hámarki viðmiðunartekna fyrir orkutap lífeyrisþega lækki ekki örorkubætur frá Tryggingastofnun. Frumvarpið tekur því til almennra hækkana á greiðslum lífeyrissjóðanna en ekki þeirra breytinga sem eiga rót að rekja t.d. til endurmats á starfsorku lífeyrisþega. Á sama hátt er lagt til að greiðslur úr lífeyrissjóðum lækki ekki vegna almennra hækkana sem verða á örorkulífeyri almannatrygginga.

Ég hygg að flestir ef ekki allir séu sammála um mikilvægi þess að framkvæmdin gangi snurðulaust fyrir sig á gildistíma samkomulagsins og er frumvarpi þessu ætlað að tryggja að svo verði. Þá hafa einstakir þættir yfirlýsingarinnar og samkomulagsins frá því í desember á síðasta ári einnig verið útfærðir nánar með ákveðnum verklagsreglum sem settar hafa verið um framkvæmdina í samvinnu ráðuneytisins, Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrissjóðanna. Þess er síðan vænst að innan þessara þriggja ára verði búið að finna skynsamlega lausn á samspili lífeyrissjóða og almannatrygginga sem bindi enda á þetta vandamál til frambúðar.

Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins kemur fram að kostnaður ríkisins á gildistíma laganna verði um 1,2 milljörðum kr. hærri frá því sem hann annars hefði orðið, enda um beinan fjárhagslegan ávinning að ræða fyrir hlutaðeigandi öryrkja. Á hitt ber þó að líta að í umsögninni er ekki sérstaklega litið til þess sparnaðar sem frumvarpið kann að leiða til fyrir hið opinbera. Nú er stefnt að því að bæta úr, almannatryggingar hækki í kjölfar kjarasamninga og að öllu óbreyttu mundu þessar hækkanir á bótum öryrkja í mörgum tilfellum leiða til þess að lífeyrissjóðsgreiðslur þeirra lækkuðu. Það mundi síðan leiða til enn frekari hækkana á bótum almannatrygginga og svo koll af kolli. Þarna mundu hinar illskeyttu víxlverkanir einmitt sýna sitt rétta andlit, fyrst og fremst með tilheyrandi óvissu og óþægindum fyrir öryrkjana sjálfa en einnig í formi hærri útgjalda fyrir ríkissjóð vegna hækkaðra bótagreiðslna frá Tryggingastofnun. Með frumvarpi þessu verður þannig komið í veg fyrir að þetta gerist og mun það leiða til sparnaðar hjá hinu opinbera sem mun koma á móti áðurnefndum kostnaði.

Hækkanir lífeyrisgreiðslna, hvort sem þær eru af hálfu lífeyrissjóðanna eða ríkisins, fara því í vasa lífeyrisþeganna en ekki til ríkisins eða lífeyrissjóðanna í formi lækkana annars aðilans á móti almennum hækkunum hins.

Það er sérstaklega ánægjulegt að fá að tala fyrir þessu frumvarpi. Þó að það sé svolítið seint komið fram miðað við samkomulagið í desember, þá er sérstaklega ánægjulegt að fá að tala fyrir þessu frumvarpi í dag. Í dag eru einmitt 50 ára afmæli Öryrkjabandalags Íslands og ég óska þeim samtökum innilega til hamingju með daginn. Það eru samtök sem hafa ekki þreyst á að minna stjórnvöld á að gæta hagsmuna þessa hóps og það er gríðarlega mikilvægt að við reynum að gera það þrátt fyrir að erfiðleikar steðji að í samfélaginu, að við gætum þess að afleiðingar hrunsins verði ekki þær að hópar lendi illa utan kerfis.

Það er athyglisvert fyrir mig sem var einmitt að koma af fundi með félagsmálaráðherrum OECD-ríkjanna að fylgjast með hvaða vandamál menn eru að glíma við í löndunum í kringum okkur og raunar um allan heim. Þar er atvinnuleysið sá ógnvaldur sem raskað hefur afkomu fjölmargra fjölskyldna. Sumir hafa búið við það í lengri tíma en aðrir hafa verið að sjá þar verulega aukningu. Raunar kemur hrunið í framhaldi af auknu misrétti. Eins merkilegt og það kann að virðast þá sjáum við það á Íslandi og við sáum það líka erlendis, við sjáum það á þessum skýrslum sem eru að koma fram, að alls staðar jókst misréttið á þessum bólutímum, eða uppvaxtartímum eins og það hét þá, og það kemur mjög skýrt fram hjá þessum OECD-löndum að þau telja eitt af mikilvægustu verkefnunum að hindra að misréttið aukist, minnka það. Það sé hreinlega spurning um velferðarkerfið að menn gæti þess að enginn verði út undan í samfélaginu. Bent er á að það eru þeir sem eru atvinnulausir eða í atvinnuleit í dag sem eru áhættuhópurinn. Það er veruleg fátækt í flestum þessum löndum og við höfum líka séð hana hér. Það þarf að fylgjast sérstaklega vel með ákveðnum hópum sem verða gjarnan út undan í svona kreppu eða í framhaldi af henni og það verður verkefni okkar í framhaldinu.

Ég vona að frumvarpið verði að minnsta kosti til að bæta ástandið hvað þetta varðar, að ef við náum einhverjum árangri á öðrum hvorum staðnum, hjá lífeyrissjóðnum eða hjá ríkinu, þá leiði það ekki til þess að það sé tekið af með einhverjum öðrum hætti. Við fáum síðan það verkefni nú í framhaldi af nýgerðum kjarasamningum að skila árangri kjarasamninganna yfir til bótaþega og inn í lífeyriskerfið okkar. Ég vona að við náum góðu samstarfi og góðum árangri í þeirri vinnu.