139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

77. mál
[14:52]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og fyrir að vekja athygli á þeim fyrirvara sem hann setur við málið. Ég kem upp til að lýsa skoðun minni á því álitaefni sem hann reifar. Frá mínum bæjardyrum séð er það grundvallarforsenda rammaáætlunar að við tökum skipulagsvaldið að þessu leyti frá sveitarfélögunum. Grundvöllur þess að við getum tekið heildstætt á virkjunarkostum er að við setjum um það ramma með hvaða hætti við ætlum að flokka virkjunarkostina og hvort við ætlum að nýta þá kosti sem til staðar eru eða vernda, eða þá að setja í biðflokkinn ef því er að skipta.

Þannig er frá mínum bæjardyrum séð lykilatriðið í löggjöfinni að valdið hvað þessa þætti skipulagsins varðar sé tekið upp á æðra stig og upp til hins sameiginlega vettvangs sem þjóðþingið er, þess starfs sem á sér stað við frumvarpsgerð og í iðnaðarnefnd þegar þar að kemur.