139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar á Miðnesheiði.

772. mál
[16:16]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Eygló Harðardóttur að þegar litið er aftur í tímann hefur allt of oft verið illa staðið að breytingum innan stjórnsýslunnar og innan stofnanakerfisins. Ég þekki það mjög vel sjálfur, úr hlutverki mínu sem formaður BSRB í langan tíma, að við komum iðulega að slíkum málum og töldum að ekki hefði verið nægilega góður og vandaður undirbúningur að baki.

Hið ámælisverða var að stjórnvöldin og pólitíkin tók ákvörðun áður en farið var að kanna málin. Fyrst var stefnan ákveðin, síðan var farið að kanna málin og ræða kosti og galla, tilkostnað, áhrif á starfsfólk og starfsemi o.s.frv.

Nú erum við að reyna að snúa þessu við. Við ráðumst í hagkvæmniskönnun, fáum staðreyndirnar upp á borðið og með hliðsjón af þeim stígum við síðan frekari skref. Það er það sem ég er að reyna að gera. Ég hef ekki neinar skoðanir á því aðrar en þær sem ég ímynda mér að séu faglegar, og í raun hagkvæmnissjónarmið, þegar um hugsanlegan flutning er að ræða.

Ég velti því til dæmis fyrir mér hvort það er rétt hugsun að líta endilega á Landhelgisgæsluna sem einingu, hvort það sé sáluhjálparatriði að þyrlurnar og skipin séu á sama stað og stjórnsýslan og flugflotinn, (Forseti hringir.) ég veit það ekki. Kannski erum við þarna föst ofan í einhverju hjólfari sem við þurfum að íhuga hvort ekki sé rétt að stíga upp úr.