139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

fjármálafyrirtæki.

783. mál
[11:59]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er rétt að kröfuhafar hafa ekki staðið sig neitt áberandi vel í því að kvarta eða bera upp álitamál við héraðsdóm. Vart hefur orðið við þær athugasemdir af hálfu kröfuhafa að þeim finnist ekkert sérstaklega þægilegt að vera í ágreiningsferli fyrir dómstólum gagnvart slitastjórn heldur.

Við teljum mjög mikilvægt að leggja áherslu á að það er héraðsdómur sem áfram hefur lokaorðið að þessu leyti en það er eðlilegt að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með slitastjórnunum að þessu leyti. Hér er ekki verið að tala um að Fjármálaeftirlitið eigi að taka ákvarðanir um gjaldskrár eða annað slíkt en Fjármálaeftirlitið eigi að hafa eftirlit með viðskiptunum og að þau séu í samræmi sem það sem almennt tíðkast. Það kunna að vera efnisleg rök fyrir háu endurgjaldi og þá eiga þau að koma fram. Það kann að vera að ábyrgðartryggingar starfsmanna eða lögmanna t.d. sem vinna í eða fyrir slitastjórnir réttlæti hátt endurgjald o.s.frv. og þá er rétt að það komi fram og tekin sé efnisleg afstaða til slíks. En það er mjög mikilvægt að einhver aðili hafi færi á að koma að athugasemdum við héraðsdóm sem er ekki beinn aðili að sambandinu milli kröfuhafa annars vegar og slitastjórnar hins vegar. Ég held að Fjármálaeftirlitið sé eðlilegasti þátturinn að þessu leyti til að gæta að samræmi og að vel sé farið með fé og eignir búsins. En það er auðvitað héraðsdóms að hafa lokaorðið að því leyti og mikilvægt að leggja á það áherslu að með breytingunni hér er ekki á neinn hátt verið rýra möguleika eða hið fulla forræði héraðsdóms (Forseti hringir.) á ákvörðunum um meðferð búsins.