139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

almenn hegningarlög.

785. mál
[14:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrri spurning hv. þingmanns lýtur að tölfræðinni, hve umfangsmikil þessi glæpastarfsemi er. Vandinn er sá að við erum að fást við neðanjarðarstarfsemi. Ekki er langt síðan því var haldið fram í opinberri umræðu á Íslandi að okkar land gæti ekki orðið áfangastaður fyrir mansal eða jafnvel gegnumstreymisstaður, en hvort tveggja er reyndin. Vitað er að mansal hefur farið um Ísland og Ísland er einnig áfangastaður. Við erum stöðugt að fá fréttir víðs vegar að úr heiminum um tölfræðilegar upplýsingar, nú síðast frá Sádi-Arabíu svo dæmi sé tekið. En sem betur fer er heimurinn að verða meðvitaðri um þennan vanda og eins og ég gat um áðan eru þjóðir heims að samræma aðgerðir gegn mansali.

Varðandi hina spurninguna, um hvort ekki væri hyggilegt að fara í upplýsingaherferð á þeim svæðum þar sem glæpurinn á rætur að rekja: Jú, en hún þarf að eiga sér stað á öllum stigum og kannski ekki síst þar sem eftirspurn skapast eftir mansali. Það er nokkuð sem við erum og höfum verið að taka á með lagabreytingu þar sem kaup á vændi er gert saknæmt. Á öllum þessum þáttum þurfum við að taka. Við eigum líka að taka þátt í alþjóðlegu átaki til að sporna gegn mansali. Það er liður í því auk þess sem það er vissa okkar að við séum að stíga rétt skref því að, eins og ég gat um áðan, þetta snýst ekki bara um að auka refsinguna heldur fylgir annað með, (Forseti hringir.) eins og heimild til gæsluvarðhalds við rannsókn máls.