139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

almenn hegningarlög.

785. mál
[14:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir þessi svör. Ég átti ekki von á því að fá mjög nákvæmar tölur um mansal en það er talið vera mikið og mjög útbreitt.

Þá er kannski næsta spurning hvort hæstv. ráðherra sé kunnugt um einhverja kortlagningu á því hvar mansal byrjar og hvar það endar, þ.e. hvaða ferðalag fórnarlömbin fara í frá því að þau eru lokkuð til samstarfs því að sjaldan er það gert með ofbeldi á þeim stað þar sem fólk er lokkað með loforðum, oft er fólk í mikilli örbirgð sem við þekkjum sem betur fer ekki hér á landi og kemur frá afskaplega fátækum löndum. Börn eru jafnvel seld; foreldrarnir selja þau væntanlega vegna mikillar örbirgðar, ekki vegna mannvonsku, og líka vegna þess að það er verið að lofa góðum lífskjörum til handa barninu. Spurningin er því hvort hæstv. ráðherra sé kunnugt um feril þessara glæpa eða fórnarlamba frá upprunalandi til „notkunarlands“, ef það má orða það svo, og hvort það sé eitthvað í gangi alþjóðlega til að upplýsa fólk í upprunalandinu um hvað bíður fórnarlambsins. Ég held að oft sé um að ræða miklar lygar og falsvonir sem eru byggðar upp um það sem bíði hinum megin.

Ég vona að þessi refsihækkun hafi eitthvað að segja. Ég hef reyndar ekki mikla trú á því að hún stöðvi mikið glæpi.