139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:45]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér er kunnugt um að hæstv. forseti Alþingis þarf ekki að sinna gestum frá rússnesku Dúmunni fyrr en kl. 19.30 og hefði því talið að klukkutími eða svo væri nægur tími til að koma hér til þings og opinbera þá fundargerð sem hér er vitnað til í greinargerð með þingsályktunartillögunni og „í orð forseta“.

Það er einfaldlega þannig að í umræðum og í þessari þingsályktunartillögu er mjög sérkennilegur sá vinkill sem hv. þm. Björn Valur Gíslason spurði 1. flutningsmann þessa máls um fyrr í dag. Af hverju er vitnað hér til laga um ráðherraábyrgð? Hvaða ráðherrar eru það sem sátu á tímabilinu október 2008 fram í janúar 2009 sem hv. þingmaður vill að verði skoðaðir sérstaklega? Ég fæ ekki tækifæri til að koma aftur í andsvar, er það? (Gripið fram í.) Einu sinni enn, já. Ég ætla þá að bíða eftir svarinu og sjá hverju hv. þingmaður svarar ef hann svarar því þá núna. (Gripið fram í: Hann svarar því …)