139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[15:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Engum tekst að mistúlka betur flokksþingssamþykktir Framsóknarflokksins en hæstv. utanríkisráðherra. Ég fylgi stefnu Framsóknarflokksins í þeirri þingsályktunartillögu sem er stopp í utanríkismálanefnd að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu strax um hvort halda eigi áfram eða ekki.

Hér var rætt um forustu á norðurslóðum. Það setur að mér ugg hversu mikinn áhuga utanríkisráðherra hefur orðið á þeim málefnum því að það tengist óneitanlega umsókn Íslands að Evrópusambandinu að komast yfir norðurslóðirnar og á að gera það í gegnum Ísland sem er raunverulega lykillinn að Evrópusambandinu á norðurslóð vegna þess að Ísland er strandríki. Á meðan er ráðherrann með hendurnar á kafi í einhverjum nammipoka í Brussel. Því langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Getur verið að Íslendingar hafi ekki fengið fastaskrifstofu Norðurskautsráðsins til Íslands vegna þeirrar staðreyndar að Ísland er í aðlögunarferli að Evrópusambandinu?