139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[19:05]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nei, nei, skoðun mín á því hvort við eigum að gerast aðilar eða ekki ræðst af því hvernig ég met sjálfur samninginn sem kemur heim á næsta ári. En til að hafa það alveg á hreinu sagði ég að samningurinn kæmi örugglega heim árið 2012, og í besta falli yrði kosið um hann árið 2013 ef allt gengi eins hratt og vel fyrir sig og nokkurn tímann hefur gerst í sögu Evrópusambandsins.

Aðeins aftur að byggðunum. Það er mikill misskilningur margra að það sé almenn og hörð andstaða við aðildarumsóknina í sveitum landsins sem og víða annars staðar, sem mátti líka skilja á hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Eina mælistikan sem við höfum á vilja almennings eru skoðanakannanir. Þar er það yfirgnæfandi meiri hluti sem vill ljúka umsóknarferlinu og kjósa um samning, leiða hann til lýðræðislegra lykta, gera það sjálfur með sínu eigin atkvæði og sínu eigin hyggjuviti, í staðinn fyrir að láta Alþingi eitt um það eins og mér heyrist hv. þingmaður tala hér um og vill hafa vit fyrir þjóðinni í stað þess að leyfa henni einfaldlega að kjósa um þetta sjálfri, treysta henni til þess þegar samningurinn er kominn heim.

Mjög margir — og örugglega góður meiri hluti úti á landi — vilja klára ferlið líka og er ég mjög forvitinn um það hvernig samningur lítur út og hvernig staðan gæti verið eftir hann. Andstaðan sem hægt má lesa um í t.d. Bændablaðinu, sem er haldi úti af hagsmunasamtökum bænda, af mjög harðsnúinni forustu þess, gefur ekki rétta eða raunsanna mynd af þeim vilja sem ég upplifi úti á landi. Þess vegna var ég alls ekki að halda einhverja sölumanns- eða loforðaræðu, ég var bara að draga fram staðreyndir. Ég var að bera saman íslenska kerfið og það evrópska, tollverndin, niðurfellingin, breytingar, ágjöf og hvað við getum gert á móti til að bæta landbúnaðinum það upp. Það var það sem ég var að segja hér áðan.