139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[20:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er þetta ekki svart og hvítt, himnaríki og helvíti. Auðvitað heldur enginn því fram að evran sé himnaríki, ekki heldur að Evrópusambandið sé lausn á öllum vanda. Það er enn þá mafía á Ítalíu þó að Ítalía sé í Evrópusambandinu. En þeim gengur þó vonandi betur að fást við hana í samstarfi við lögreglu annars staðar í álfunni og í samstarfinu í Evrópusambandinu gegn spillingu.

Það segir allt sem segja þarf um okkar eigin gjaldmiðil og þá stöðu sem við erum í að evran skuli vera svona miklu betri valkostur en hann þrátt fyrir hennar erfiðleika. Ég vil þó vara hv. þingmann við því að taka þann ágæta gjaldmiðil evruna af lífi úr ræðustól Alþingis. Mig minnir að síðast hafi gert það fyrirrennari hans Davíð Oddsson seint á síðustu öld og líkt honum við kúbanska gjaldmiðilinn. Þá átti ekki annað fyrir evrunni að liggja en styrkjast um meira en helming í framhaldinu og má hún við býsna miklum erfiðleikum enn áður en hún kemur að þeirri stöðu sem hún lagði af stað í fyrir rétt rúmlega áratug.

Þó að það sé erfitt, í tveggja mínútna svari við andsvari, að ráða fram lausn á þeim vanda sem evran á við að glíma þá er það fyrst og fremst efnahagsstarfsemin á evrusvæðinu sem mun ráða um farsæld hennar og það er rétt, sem kom fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra, að þar eru sannarlega betri horfur en áður var og meiri vöxtur á síðasta ársfjórðungi en var á árinu þar áður, að ég hygg svo nemi liðlega 2%.