139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[21:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður segir að Evrópusambandið sé komið langt fram úr þeirri hugsun að vera friðarbandalag þar sem menn og konur í samvinnu finni út úr góðri skipan til að allir fái varið hagsmuni sína. Það er kannski rétt að benda hv. þingmanni á að Evrópusambandið er komið nokkuð til ára sinna. Það var stofnað í öðru umhverfi upp úr síðari heimsstyrjöldinni, eins og hann benti á, þegar Evrópa hafði margoft farið í gegnum mjög erfið stríðsátök. Við búum í heimi sem er orðinn mun alþjóðavæddari og erum að takast á við annars konar vandamál eins og loftslagsmál og skipulagða glæpastarfsemi. Það eru mjög margir þættir sem krefjast mjög víðtækrar alþjóðlegrar samvinnu og auðvitað þarf Evrópusambandið að vinna með öðrum þjóðum en Evrópuþjóðum að þeim málum.

Þegar hv. þingmaður talar um samþjöppun valds og slíkt þá held ég að það sé akkúrat það dílemma sem verið er að takast á við. Það er ekki þannig að Þjóðverjar eða Frakkar eða Spánverjar hafi haft aðrar hugmyndir en Íslendingar um sjálfsákvörðunarrétt þjóða sinna. Á næstu árum verður mjög mikil umræða um það hvernig hægt sé að skipa peningamálum Evrópumyntsamstarfsins án þess að ganga um of á sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Ég ætla ekki að draga dul á að það verður þó nokkur kúnst að finna út úr þeim málum. En ég vil frekar fá að taka þátt í því samstarfi en að sitja hér uppi með það að herða eilíflega höftin á íslensku krónunni. (Forseti hringir.)