139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[15:27]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi umræða er mjög fín og er afar mikilvæg. Það er rétt að fjárlaganefnd og ráðuneytið þarf að ræða einmitt þetta með framúraksturinn og hvernig eigi að bregðast við vegna þess að vandamálið okkar varðandi sérgreinalæknana er að þar hafa menn verið fastir í samningi sem rennur ekki út fyrr en á miðju þessu ári. Nú er hann í rauninni runninn út en þá hafa menn farið á opnum samningi þannig að við höfum ekki verið í samningsstöðu enn þá og verður þá að meta það hvort við hættum að greiða læknisþjónustu. Sumt af þeirri þjónustu sem þar er er ekki hægt að veita nema af sérgreinalæknum. Þetta er býsna stór ákvörðun sem þarf að taka og ég sem ráðherra hef ekki farið út í það að loka á þetta eða hætta ákveðinni þjónustu til að jafna þennan fjárlagamun, enda tel ég að þarna hafi í sjálfu sér, þótt ég hafi komið að því áður, verið vitlaust gefið.

Sama er með S-lyfin. Það var ein af samþykktum m.a. fjárlaganefndar að nota lyf til ákveðinnar lyfjagjafar sem kostaði 160 milljónir, veittar voru 100 milljónir í það. Við erum að tala um (Forseti hringir.) aukin útgjöld sem við ráðum því miður ekki við, nema þá að fara í stóraukna gjaldtöku eða neita lyfjameðferð á ákveðna sjúkdómaflokka. Ég hef ekki lagt það til en mun leita til þingsins um að fá aukafjárveitingar til að standa undir þessum viðbótarkostnaði.