139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[12:54]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég sit ekki í menntamálanefnd, ég er ekki svo heppin, en ég get ekki látið hjá líða að taka þátt í þeim fögnuði og hamingjuóskum til allrar þjóðarinnar vegna þess áfanga sem blasir nú við. Ég tek undir þakkir til hæstv. menntamálaráðherra, formanns menntamálanefndar og nefndarinnar allrar fyrir þetta vel unna starf sem birtist hér.

Ég vísa þá ekki aðeins í stöðu okkar ástkæra, ylhýra tungumáls, íslenskunnar, heldur fyrst og síðast þeim langþráða áfanga að nú sé íslenskt táknmál fyrsta tungumál heyrnarlausra á Íslandi. Ég reyndi einhvern tíma þegar ég bjó í Bandaríkjunum að læra bandarískt táknmál vegna þess að með mér í skóla var mögnuð stúlka, heyrnarlaus og mállaus. Ég er því miður búin að gleyma flestu af því sem ég lærði. Ég hef hins vegar fengið að fylgjast með hæstv. umhverfisráðherra Svandísi Svavarsdóttur þegar hún tjáir sig á þessu yndislega fallega máli, íslenska táknmálinu. Helst mundi ég viljað geta flutt ræðu mína á táknmálinu sjálfu en ég er ekki svo góð, segi bara: Til hamingju Ísland og fagna að lokum á táknmáli.