139. löggjafarþing — 132. fundur,  20. maí 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:17]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Frumvarpið var lagt fram í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga til þriggja ára á almennum markaði sem undirritaðir voru 5. maí síðastliðinn. Þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til fela í sér hluta þeirra aðgerða sem stjórnvöld ráðast í að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins. Markmiðin eru að styrkja stöðu fólks á vinnumarkaði, efla úrræði fyrir atvinnuleitendur, en einnig er lögð til breyting sem styrkir heimild Vinnumálastofnunar til að sporna við bótasvikum. Sérstök áhersla er lögð á þátttöku atvinnuleitenda í starfstengdum vinnumarkaðsúrræðum, svo sem reynsluráðningu, starfsþjálfun, frumkvöðlastarfi innan fyrirtækja eða átaksverkefnum. Gert er ráð fyrir að slíkum úrræðum verði fjölgað um allt að 1.500 árið 2011 þannig að heildarfjöldi þeirra sem njóta slíkra úrræða tvöfaldast.

Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins taka með þessu móti höndum saman og setja verulega aukinn kraft í aðgerðir fyrir atvinnuleitendur. Þetta er afar mikilvægt, ekki aðeins til að takast á við tímabundna erfiðleika, heldur felst í þessu framtíðarsýn með áherslu á að byggja fólk upp og skapa því betri möguleika en áður til að skapa sér áhugaverð atvinnutækifæri til framtíðar.

Hæstv. forseti. Ég mun nú rekja helstu efnisþætti frumvarpsins í stuttu máli.

Í 1. gr. er skýrt kveðið á um að eftirlitsfulltrúum sem starfa á vegum samtaka aðila vinnumarkaðarins, samanber nýleg lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, sé skylt að láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna. Sama máli gegnir um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Kveðið er á um sambærilega upplýsingaskyldu hans til Vinnumálastofnunar í ljósi þess að þeir sem stunda hefðbundið nám á framhaldsskólastigi eða í háskóla teljast ekki til atvinnuleitenda. Það er því ekki Atvinnuleysistryggingasjóðs að tryggja framfærslu þeirra heldur er Lánasjóði íslenskra námsmanna ætlað það hlutverk.

Hér er einnig kveðið á um upplýsingaskyldu Vegagerðarinnar í sama skyni vegna umsjónar hennar með ýmsum leyfisveitingum tengdum bifreiðaakstri í atvinnuskyni og loks er kveðið á um heimild Vinnumálastofnunar til gagnaöflunar hjá tollyfirvöldum sambærilegum og þegar gilda gagnvart skattyfirvöldum. Er þetta gert vegna samstarfs Vinnumálastofnunar og tollyfirvalda vegna ýmiss konar eftirlits með greiðslum atvinnuleysistrygginga til atvinnuleitenda.

Samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar er réttur atvinnuleitenda með fullan bótarétt samtals fjögur ár. Taki þeir þátt í starfstengdum vinnumarkaðsúrræðum dregst þátttökutíminn frá bótatímabilinu og það styttist sem honum nemur. Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að þessu verði breytt þannig að atvinnuleitandi gangi ekki á rétt sinn til bóta með þátttöku í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði. Er þá gert ráð fyrir að viðkomandi fái greidd laun frá vinnuveitanda á þeim tíma sem eru hærri en nemur grunnatvinnuleysisbótum og eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Ég tel þetta mikla bót og réttlætismál fyrir atvinnuleitendur, því það gengur ekki að kerfið fæli fólk frá þátttöku í starfstengdum vinnumarkaðsúrræðum.

3. gr. frumvarpsins felur í sér að ráðherra verður heimilt að ákveða í reglugerð að greidd sé uppbót á atvinnuleysisbætur í desember ár hvert. Miðað er við að höfð verði hliðsjón af þeim reglum sem gilda almennt um desemberuppbót í almennum kjarasamningum. Miðað er við að atvinnuleitandi geti ekki fengið fulla uppbót samtímis frá Atvinnuleysistryggingasjóði og vinnuveitanda heldur verði greiddar hlutfallslegar bætur í samræmi við atvinnuþátttöku eða tímabil á atvinnuleysisskrá eftir því sem við á.

Í 3. gr. er einnig kveðið á um að þegar atvinnuleitandi er í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði skuli litið á mótframlag Vinnumálastofnunar til launagreiðanda sem styrk, en fjárhæðin nemur eftir sem áður grunnatvinnuleysisbótum sem viðkomandi atvinnuleitandi ætti ella rétt á, auk 8% mótframlagi í lífeyrissjóð.

Í 4. gr. frumvarpsins er skerpt á ákvæðum varðandi ranga upplýsingagjöf atvinnuleitanda til Vinnumálastofnunar. Einnig er lagt til að framvegis verði litið svo á að láti atvinnuleitandi vísvitandi undir höfuð leggjast að tilkynna Vinnumálastofnun um breytingar á högum sínum sem varðar rétt hans til bóta hafi það sömu afleiðingar og að veita rangar upplýsingar.

5. gr. frumvarpsins kveður á um framlengingu ákvæða til bráðabirgða um atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli út þetta ár, enda þykir þetta ákvæði hafa gefist vel og ótvírætt leitt til þess að færri hafa misst störf sín að fullu en ella hefði verið. Þess má geta að þetta ákvæði hefur nýst heldur fleiri konum en körlum, en alls voru tæplega 1.200 einstaklingar á hlutaatvinnuleysisbótum í apríl síðastliðnum.

Samkvæmt 7. og síðustu grein frumvarpsins verða gerðar lagabreytingar sem bæta réttarstöðu starfsmanna þegar fyrirtæki sem þeir starfa hjá eru tekin til gjaldþrotaskipta og þrotabúið selt. Oftar en ekki tilkynnir skiptastjóri við upphaf skiptameðferðar að þrotabúið taki ekki við réttindum og skyldum samkvæmt ráðningarsamningum starfsmanna. Því er lögð til sú breyting að virða þau launakjör og starfsskilyrði sem giltu hjá fyrri vinnuveitanda á þeim degi sem úrskurður um gjaldþrot var kveðinn upp. Sama máli gegnir ef gripið er til uppsagna hjá þrotabúinu vegna endurskipulagningar. Til að vernda starfsfólk við þær aðstæður er lagt til að komi til endurráðningar innan þriggja mánaða frá aðilaskiptum skuli virða launakjör og starfsskilyrði þess eins og þau voru við gjaldþrot fyrirtækisins.

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í upphafi er frumvarpið lagt fram í tengslum við sameiginlega yfirlýsingu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í kjölfar nýgerðra kjarasamninga. Ég er sannfærður um að breytingar samkvæmt frumvarpinu séu sanngjarnar, réttlátar og til þess fallnar að efla vinnumarkaðsaðgerðir, bæta stöðu atvinnuleitenda og einnig fólks sem er starfandi á vinnumarkaðnum. Það er mikilvægt að Alþingi samþykki frumvarpið. Ég treysti því að umfjöllun þingmanna verði málefnaleg eins og efni standa til og treysti og veit raunar að félags- og tryggingamálanefnd mun fjalla vandlega um málið en ég mæli með því að þetta fái umfjöllun í hv. félags- og tryggingamálanefnd Alþingis og verði vísað til 2. umr.