139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

svör við fyrirspurnum.

[10:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra þurfi ekkert að hæla sér yfir því þó að ráðherrar lufsist að lokum til þess að svara spurningum sem fyrir þá eru lagðar, þeim ber einfaldlega þingleg skylda (Gripið fram í.) til að gera það.

Kjarni málsins er að nær níu tugum fyrirspurna er ósvarað og níu skýrslur hafa ekki borist. Síðast þegar þetta var skoðað, fyrir fáeinum dögum, var meiri hluti þeirra spurninga sem þá var ósvarað spurningar sem höfðu komið til þingsins fyrir 1. apríl. Ég vek athygli á því að ríkisstjórnin hefur komið inn með stór mál eftir 1. apríl. Á síðasta þingi var meiri hluta málanna sem ríkisstjórnin lagði fram hent inn í þingið þann 1. apríl til að tryggja að þau hefðu þá borist fyrir lögmætan tíma.

Það er mjög sérkennilegt að þingmenn þurfi að koma með eftirrekstur til að fá spurningum svarað og það er auðvitað ekki rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að það eigi að vera eðlilegt (Forseti hringir.) að hv. þingmenn þurfi að vera hér dag eftir dag í ræðustól Alþingis til að knýja á (Gripið fram í.) um svör. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra má þó eiga það að ég held að það séu ekki nema fjórar eða fimm spurningar sem er ósvarað úr utanríkisráðuneytinu. (Gripið fram í.)