139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða og efnismikla ræðu sem ég er um margt sammála þó að um eitt og eitt atriði sé ég kannski ekki alveg sömu skoðunar.

Ég held að það séu fáir menn sem vita jafnmikið um tilurð, innihald og sögu EES-samningsins hér á þingi og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson og hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson. En að öllum öðrum ólöstuðum utan þings er það Björn Bjarnason sem leiddi meðal annars nefndina 2007 sem skilaði af sér úttektinni á EES-samningnum sem hv. þingmaður sat í. Á þeim grunni vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þingið ekki hafa gert nægilega mikið eins og mátti skilja á orðum hans, hvort það sé rétt skilið hjá mér að hann telji að þingið eigi að gera meira til að fylgja eftir réttindum okkar Íslendinga og skyldum í tengslum við EES-samninginn. Er hann sammála því að við eigum að koma okkur upp fulltrúa, þ.e. löggjafarþingið, eða skrifstofu í Brussel til að stuðla að því að sjónarmið okkar komist fyrr að þegar tilskipanir eru undirbúnar?

Í öðru lagi vil ég spyrja hann og fá álit hans á því, af því að þetta tengist þjónustutilskipuninni sem hv. þingmaður sagði réttilega frá, hvernig hann meti í þeim skilningi gjaldeyrishöftin í samhengi við EES-samninginn og hvort hann telji okkur Íslendingum einfaldlega stætt á því að vera með gjaldeyrishöft von úr viti fram eftir árum eins og stefna ríkisstjórnarinnar augsýnilega er.