139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

skuldaniðurfærsla hjá Landsbankanum og fleiri lánveitendum.

[13:56]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get ekkert gert annað, til að bregðast við óskum hv. þingmanns, en að hvetja þá þessa einkabanka til að fara að fordæmi bankans sem er í ríkiseign og ganga eins langt og þeir geta til að koma til móts við skuldug heimili. Við skulum sjá hvort þeir geri það ekki.

Síðan vil ég leiðrétta það sem kom fram hjá hv. þingmanni, og ég hélt ég hefði leiðrétt hér áðan, að ríkissjóður er ekki að setja neina 406 milljarða í bankana eins og menn vilja vera láta. Verulegur hluti af því sem verið er að nefna, og var í Morgunblaðinu í morgun, er einungis lausafjárfyrirgreiðsla sem er algeng og alþekkt og hefði komið til hvernig sem við hefðum farið með endurreisnina á (Gripið fram í.) bönkunum. Hún var líka fyrir hendi, eins og ég sagði, hjá fyrrverandi seðlabankastjóra sem þó fór þá leið að veita lausafjárfyrirgreiðslu þó að ekki væri veð fyrir hendi. (Gripið fram í.) Það voru 300 milljarðar kr., ja, kannski var ástæða til. (Gripið fram í: … kannski ástæða til að …) (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Gefa ræðumanni hljóð.)

Að því er varðar skuldugu heimilin verður þingmaðurinn aðeins að skoða hvað verið er að gera í þessum efnum. Þetta eru 36 milljarðar sem við erum að setja á þessu og næsta ári í vaxtaniðurgreiðslur til heimilanna í landinu, 97 þúsund heimili (Forseti hringir.) fengu þá vaxtaniðurgreiðslu í síðasta mánuði og munu aftur fá í ágúst. Það eru því öfugmæli þegar aftur og aftur er verið að reyna að halda því fram úr þessum ræðustól að við séum ekkert að gera fyrir skuldug heimili.