139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

atvinnuuppbygging í Þingeyjarsýslum.

[10:51]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Engar fréttir af þessari ríkisstjórn eru vissulega góðar fréttir í langflestum tilvikum en þegar kemur að þessari uppbyggingu sem heimamenn hafa unnið að í mörg ár í sátt og samlyndi innbyrðis og stigið rétt skref hljóta þeir að staldra við og spyrja sig: Hvað með aðgerðir? Hvað með efndir (Iðnrh.: Hverjir …?) á öllum þeim stóru loforðum sem bæði hæstv. iðnaðarráðherra kom með úr ræðustól Alþingis sem og hæstv. forsætisráðherra þegar hún lofaði fyrir ekki svo löngu um 80 milljarða fjárfestingu í Þingeyjarsýslum?

Þetta verkefni þarfnast ekki einnar viljayfirlýsingarinnar enn, þarfnast ekki frekara samkomulags um að það eigi að gera eitthvað í framtíðinni. Það er einfaldlega allt til reiðu. Þetta er það einstaka verkefni sem gæti komið Íslandi (Forseti hringir.) áfram, aukið hagvöxt og minnkað atvinnuleysi. Það er ótrúlegt (Forseti hringir.) að fylgjast með því að hér eigi ekki að taka til hendinni, heldur eigi enn á ný að (Forseti hringir.) koma með stór orð og enn eina viljayfirlýsinguna.