139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

orð fjármálaráðherra -- umræða um stjórn fiskveiða.

[11:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá að koma hér upp. Ég er búin að reyna að komast í þennan ræðustól til að ræða fundarstjórn forseta síðan klukkan 11 en nú er komið að því.

Mig langar til að minna forseta á að láta af meðvirkni við þá verklausu ríkisstjórn sem hér situr. Þingið getur ekki lengur haft það umburðarlyndi sem því er ætlað af þeim ráðherrum sem sitja í ríkisstjórninni. Áðan féllu hér mjög þung orð frá hæstv. fjármálaráðherra undir fyrirspurn frá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni. Ráðherrann gengur nú úr sal. (Fjmrh.: Nei, nei.) Hann kom hér í ræðu og taldi að þingmenn ættu að taka róandi töflur þegar þeir sjálfir sitja [Kliður í þingsal.] og nýta sinn lögbundna rétt sem þeir voru kosnir til að gera, að halda aðhaldi að ríkisstjórninni.

Frú forseti. Ég harma það mjög að forseti skyldi ekki hafa ákveðið að ávíta hæstv. fjármálaráðherra þá þegar en hvet ráðherrann til að koma upp sjálfviljugur og biðjast afsökunar á þessum orðum sínum. [Háreysti og lófatak í þingsal.]