139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er sjálfsagt að samræma gjaldtöku og skattlagningu á auðlindir en að vera að draga landshluta í dilka og egna þá hverja á móti öðrum með því að ætla sumum landsmönnum eitthvað meiri hlut í tilteknum skatttekjum en öðrum er auðvitað alveg fráleitt. Menn sjá það auðvitað bara af því ef við hér í Reykjavík gerðum meiri kröfur til tekna ríkissjóðs af virðisaukaskatti hversu fráleit sú nálgun væri. Þessar tekjur eigum við landsmenn saman og síðan ráðstöfum við þeim hér á hverju ári í fjárlögum til þeirra verkefna sem brýn eru og þau geta auðvitað oft verið að styðja byggðir sem þurfa stuðnings við.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort hann sé á móti því að auka heimildir í strandveiðunum og hvort hann telji að það hafi ekki verið farsælt skref að ráðast í strandveiðarnar og sjá það mikla líf og góðu atvinnustarfsemi sem hefur (Gripið fram í.) þrifist í kringum þá uppbyggingu um land allt.