139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

864. mál
[11:06]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 1579 sem hv. viðskiptanefnd flytur. Þar er mælt fyrir um nýtt bráðabirgðaákvæði sem bætast skuli við lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, með síðari breytingum. Það eru lög nr. 98/1999.

Með þessu bráðabirgðaákvæði er tryggt að innheimt verði á yfirstandandi ári, þ.e. á árinu 2011, iðgjald, bæði almennt iðgjald og breytilegt iðgjald af innstæðum eins og þær eru skilgreindar í 14. mgr. 1. gr. frumvarpsins, en það er á sama hátt og mælt er fyrir um í frumvarpi til laga um nýtt innstæðutryggingakerfi, þ.e. 237. mál þingsins sem hv. viðskiptanefnd hefur haft til meðferðar í vetur. Vísa ég til 10. og 11. gr. þess frumvarps en ákvæðin um innheimtu gjaldsins eru samhljóða þeim greinum í þessu bráðabirgðaákvæði sem hér er lagt til. Iðgjaldið er sem sagt innheimt af inneign viðskiptamanns hjá innlánsstofnun að meðtöldum vöxtum og verðbótum.

Í þessu ákvæði í þessu frumvarpi er mælt fyrir um það að iðgjald sem innheimt verður á árinu 2011 renni í sjálfstæða deild sjóðsins og að ekki verði úthlutað úr deildinni nema með sérstökum lögum þar um. Nýmælin sem hér eru á ferðinni eru auk þessa fólgin í því í fyrsta lagi að hér er að finna takmörkun á tryggingaverndinni og andlagi innheimtunnar og vísa ég þá til 15. mgr. í frumvarpinu þar sem tekið er fram í átta tölusettum liðum hvaða innstæður njóta ekki verndar. Er það í samræmi við 14. gr. frumvarpsins sem ég nefndi áðan og þær breytingartillögur sem samþykktar hafa verið og lágu hér fyrir eftir 2. umr. um það mál.

Í öðru lagi er hér ákvæði um að iðgjald skuli greitt í íslenskum krónum og að hið sama skuli eiga við um greiðslur úr deildinni. Þetta er í samræmi við breytingartillögu við það frumvarp sem ég hef tvívegis vikið að áður og er nýmæli.

Í þriðja lagi er mælt fyrir um að iðgjaldið skuli vera 0,3% á ári í stað 0,15% eins og verið hefur, þ.e. almenna iðgjaldið. Gjalddagi fyrsta og annars ársfjórðungs skal vera 1. september, gjalddagi þriðja ársfjórðungs 1. nóvember, gjalddagi fjórða ársfjórðungs 1. mars 2012 en dæmi eru um að gjalddagar af þessu tagi séu færðir yfir á næsta ár.

Frú forseti. Þetta þingmál felur í sér sátt um það að í sumar verði áfram unnið að því að koma á fót nýju tryggingakerfi fyrir innstæðueigendur í samvinnu hv. viðskiptanefndar og ráðuneytisins og ég vænti þess að þingheimur allur muni geta fallist á þessa niðurstöðu.

Ég legg til að málinu verði vísað til hv. viðskiptanefndar.